Nice Pale Rosé

Léttvín í öðrum umbúðum en hefðbundnum glerflöskum (og helst með korktappa) hafa lengi verið litin hornauga og sett skörinni lægra en vín í gleri. Það hefur tekið langan tíma að sannfæra marga vínneytendur að skrúftappi sé í lagi (og margir trúa því ekki enn). Kassavín hafa sömuleiðs þótt ómerkilegri en flöskuvín, en það eru engu að síður prýðisgóðar umbúðir fyrir vín sem ekki eru ætluð til langrar geymslu. Á síðustu árum hafa svo áldósirnar verið að ryðja sér til rúms á vínmarkaðnum – sumum til ánægju, öðrum til hryllings.

Frá umhverfissjónarmiðum eru áldósirnar líklega umhverfisvænustu umbúðirnar. Dósirnar er hægt að endurvinna aftur og aftur, en sama verður ekki sagt um glerið. Dósirnar eru léttar og því ódýrari í flutningi, á meðan glerið er talsvert þyngra (flaskan vegur um 500 grömm, áldósin um 15 grömm). Það þarf heldur engin áhöld til að opna dósina…

Nú fást nokkur dósavín í vínbúðunum – samkvæmt vef vínbúðanna eru þau 12 talsins – og vonandi á þeim eftir að fjölga. Í fyrra fjallaði ég um tvö dósavín frá Underwood (Vínklúbburinn var mjög hrifinn af Underwood Pinot Noir) og það er við hæfi í rósavínsmaraþoninu að fjalla líka um rósavín í dósum.

Nice Pale Rosé

NICE er ungt, breskt fyrirtæki (stofnað 2019) sem framleiðir vín „fyrir framtíðina“. Vínin eru þrjú rósavín frá Languedoc-Roussillon í Frakklandi, Sauvignon Blanc frá Côtes de Gascogne í Frakklandi og Malbec frá Argentínu. Vínin eru öll fáanleg í dósum og kössum (öll dósavínin fást í Vínbúðunum). Rósavínið er gert úr Grenache.

NICE Pale Rosé er föl-laxableikt á lit, með nokkuð lokaðan ilm sem þó gefur af sér jarðarber, rifsber og sítrus. Í munni er vínið þurrt, með miðlungs sýru og létta fyllingu. Í mildu eftirbragðinu eru jarðarber, hindber, perur, epli, límónur og smá hunang. 84 stig. Ágæt kaup (640 kr, 187 ml). Drekkið vel kælt í útilegunni.

Það fer lítið fyrir umsögnum um þetta vín, en Tom Cannahan (www.wine-pages.com) gefur því 85 stig.

Nice Pale Rosé
Ágæt kaup
Nice Pale Rosé er tilvaliði í útileguna!
3
84 stig

Vinir á Facebook