Fleurs de Prairie Côtes de Provence 2021

Áfram heldur rósavínsveislan og nú förum við til þekktasta rósavínshéraðsins – Provence í Frakklandi. Rómverjar voru duglegir að breiða út vínrækt og víngerð, en þegar þeir komu til Provence var þar þegar stunduð vínrækt. Grikkir höfðu nefnilega komið þangað og hafið vínrækt löngu áður en Rómverjar komu. Þetta var fyrsta héraðið sem Rómverjar lögðu undir sig og þeir kölluðu það Provincia nostra – „héraðið okkar“ – og nafnið hefur í raun haldist síðan þá. Ég skrifaði yfirlitsgrein um Provence í fyrra og þið getið fræðst betur um Provence hér.

Vínið dagsins kemur frá vínhús sem nefnist Fleurs de Prarie, sem eru í eigu fyrirtækisins Les Grands Chais de France, sem er stærsta vínfyrirtæki Frakklands í einkaeigu. Les Grands Chais de France á ein 18 vínhús, þar á meðal Arthur Metz, J.P. Chenet og Domaine de La Baume, svo nokkur séu nefnd.

Vín dagsins

Mourvédre er lang mikilvægasta þrúgan í Provence, en hún er í algjöru aukahlutverki í víni dagsins. Vínið er gert úr þrúgunum Grenache Noir (43%), Syrah (40%), Carignan (9%), Cinsault (5%) og Mourvèdre (3%). Þrúgurnar eru meðhöndlaðar og gerjaðar hver í sínu lagi í stáltönkum. Lokablöndun fer svo fram fyrir átöppun.

Fleurs de Prairie Côtes de Provence 2021 er föl-laxableikt á lit með blómlega angan af jarðarberjum, rifsberjum, ferskjum, apríkósum og steinefnum. Vínið er þurrt, með miðlungsfyllingu og ríflega miðlungs sýru. Jafnvægið er gott, og í eftirbragðinu má finna jarðarber, rifsber, ferskjur og apríkósur. 88 stig. Góð kaup (2.799 kr). Fer ljómandi vel með ljósu fuglakjöti, fiskréttum, sushi og grænmetisréttum hvers konar. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (1.028 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Enthusiast gefur þessu víni 86 stig. 2019-árgangurinn fékk 4 1/2 stjörnu hjá Þorra í Víngarðinum.

Fleurs de Prairie Côtes de Provence 2021
Góð kaup
Fleurs de Prairie Côtes de Provence 2021 fer ljómandi vel með ljósu fuglakjöti, fiskréttum, sushi og grænmetisréttum hvers konar.
4
88 stig

Vinir á Facebook