Pour Le Vin Bonne Mine Rosé 2020

Árið 1980 byrjaði Paul Boutinot að flytja frönsk vín inn til Bretlands. Í fyrstu fór hann sjálfur til Frakklands þar sem han valdi vínin og flutti þau með kerru til Bretlands, þar sem hann ók þeim sjálfur til viðskiptavina sinna. Innflutningurinn gekk vel og Boutinot stækkaði. Tíu árum síðar opnaði Boutinot útibú í Frakklandi og brátt var Boutinot farinn að kaupa þrúgur af vínbændum og búa til sín eigin vín. Í dag á Boutinot vínekrur í Cairanne og Saint-Vérand, auk þess sem hann kaupir þrúgur af vínbændum til eigin víngerðar. Einnigar aðstoðar Boutinot litla vínbændur einnig við að búa til sín eigin vín, sem hann svo selur fyrir þá.

Pour Le Vin eru vín sem Boutinot framleiðir sjálfur. Þrúgurnar koma af vínekrum í Languedoc og Gascony og vínin eru gerð í klassískum frönskum stíl. Sum vínin flokkast sem Pays d’Oc, en önnur einfaldlega sem Vin de France (gert úr þrúgum frá mismunandi héruðum innan Frakklands). Nöfn vínanna eru sótt í ýmis frönsk máltæki, sem vísa til góðrar heilsu og útlits.

Vín dagsins

Pour Le Vin Bonne Mine Rose

Vín dagsins er gert úr þrúgum frá Languedoc og Gascony og flokkast sem Vin de France. Bonne Mine þýðir fallegt andlit, en við gætum kannski staðfært þetta yfir í „rjóðar kinnar“ sem við notum jú sem lýsingarorð um gott útlit! Vínið er gert úr Grenache-þrúgum, en ég hef litlar upplýsingar um sjálft framleiðsluferlið.

Pour Le Vin Bonne Mine Rosé 2020 er fölbleikt á lit, með blómlegan ilm af jarðarberjum, hindberjum, vatnsmelónum, grænum eplum, perum og smá hunangi. Vínið er þurrt, með ríflega miðlungs sýru, létta fyllingu og gott jafnvægi. Í eftirbragðinu finnur maður melónur, jarðarber, hindber, epli og perur. 86 stig. Góð kaup (2.299 kr). Fer vel með sushi, ljósu fuglakjöti, fiskréttum og smáréttum hvers konar, en er einnig gott sem kaldur fordrykkur.

Vínið hefur of fáar umsagnir á Vivino til að fá meðaleinkunn, og ég fann engar aðrar umsagnir um það.

Pour Le Vin Bonne Mine Rosé 2020
Góð kaup
Pour Le Vin Bonne Mine Rosé 2020 fer vel með sushi, ljósu fuglakjöti, fiskréttum og smáréttum hvers konar - einnig gott sem kaldur fordrykkur.
3.5
86 stig

Vinir á Facebook