Áhersla á umhverfisvænni landbúnað og lífræna ræktun hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Meðvitund neytenda um mögulega skaðleg áhrif tilbúins áburðar og skordýraeiturs hefur orðið meira áberandi og sífellt fleiri kjósa lífrænt ræktaðar vörur, séu þær í boði. Vínhús Emiliana í Chile hefur undanfarin 30 ár einbeitt sér að lífrænni ræktun og er í dag stærsta lífræna vínhúsið í heiminum. Vínhúsið hefur verið í fararbroddi lífrænnar víngerðar, ekki bara í Chile, heldur á heimsvísu. Í dag á vínhúsið vínekrur í öllum helstu vínhéruðum Chile og ekrurnar ná yfir 1200 hektara lands.
Adobe Reserva er grunnlínan í framleiðslu Emiliana. Vínin eru öll lífrænt ræktuð og öll framleiðslan fylgir þeim reglum sem gilda um lífræna framleiðslu. Alls eru 11 mismunandi vín í þessari vörulínu – 6 rauð, 4 hvít og eitt rósavín. Öll vínin eru einnar þrúgu vín, að rósavíninu undanskildu.
Vín dagsins
Vín dagsins er rósavín frá Chile, gert úr þrúgunum Cabernet Sauvignon (40%), Syrah (40%) og Merlot (20%). Að lokinni gerjun var vínið geymt í stáltönkum í 3 mánuði áður en það fór svo á flöskur.
Emiliana Adobe Reserva Rosé 2021 er fölbleikt á lit, með léttan ilm af rifsberjum, jarðarberjum, ferskjum, melónum, hunangi, sítrónum, steinefnum og smá seltu. Í munni er vínið þurrt með ríflega sýru og létta fyllingu. Eftirbragðið er þægilegt og miðlungslangt, með rifsber, jarðarber, melónur, ferskjur, sítrónur og steinefni. 88 stig. Mjög góð kaup (2.399 kr). Njótið með sushi, skelfiski, ljósu fuglakjöti, skinku, salati og grænmetisréttum hvers konar. Einnig ljómandi gott sem kaldur fordrykkur. Sýnishorn frá innflytjanda.
Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (823 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson í Víngarðinum gaf 2020-árgangnum 4 stjörnur og Steingrímur í Vinoteki gaf sama árgangi 4,5 stjörnur.