Finca Martelo Rioja Reserva 2016

Árið 1890 tóku fimm fjölskyldur frá Rioja og Baskalandi sig saman og stofnuðu vínhúsið Sociedad Vinícola de La Rioja Alta. Með tímanum styttist nafnið í La Rioja Alta en það var þó ekki fyrr en 1941 sem nafnbreytingin varð formleg. La Rioja Alta hefur lengi verið eitt af fremstu vínhúsum í Rioja og hefur í gegnum árin eignast fleiri vínhús í Rioja og Ribera del Duero. Nýjasta viðbótin í safnið er vínhús Torre de Oña, sem La Rioja Alta keypti árið 1995. Fyrstu árin eftir kaupin á Torre de Oña voru áherslur í víngerðinni nokkuð klassískar. Þrúgum af ólíkum ekrum var blandað saman og útkoman klassísk Rioja-vín.

Árið 2005 var áherslum Torre de Oña breytt og meira horft á mismunandi jarðveg vínekranna þegar blöndun var ákveðin. Nú eru gerð 2 vín á hverju ári – Finca San Martin Crianza og Finca Martelo Reserva, en hið síðarnefnda aðeins ef gæðin eru næg.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr þrúgunum Tempranillo (95%) ásamt Graciano, Mazuelo og Viura (sem er hvít þrúga). Vínviðurinn er yfir 60 ára gamall, en slíkur vínviður gefur almennt af sér mun betri þrúgur en yngri vínviður. Safinn var látinn liggja á hýðinu í 10 daga áður en gerjun hófst. Að lokinni gerjun var vínið látið liggja í rúma 3 mánuði á tunnum (amerísk og frönsk eik) þar sem malólaktísk umbreyting átti sér stað. Að því loknu fékk vínið 24 mánaða hvíld í tunnum úr amerískri 80%) og franskri (20%) eik. Þá fór fram lokablöndun og vínið var sett á flöskur.

Finca Martelo Rioja Reserva 2016 er djúprautt á lit með góða dýpt. Í nefinu er þéttur ilmur af leðri, kirsuberjum, vanillu, eik, súkkulaði, tóbaki, sólberjum, balsamic og svörtum pipar. Vínið er þurrt, með góða sýru og ríflega miðlungs tannín, sem eru þétt og flauelsmjúk. Eftirbragðið er langt og þétt, með leður, kirsuber, vanillu, eik, súkkulaði, tóbak, sólber, kókos, balsamic og svartan pipar. 95 stig. Frábær kaup (5.399 kr). Nýtur sín vel með villibráð, spænsku pylsum og skinkum, góðri nautasteik og lambi, einkum ef það hefur haft viðkomu á grillinu, en er líka frábært eitt og sér. Endist vel næsta áratuginn. Sýnishorn frá innflytjanda.

Robert Parker gefur þessu víni 95 stig og Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (477 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson í Víngarðinum og Steingrímur í Vinoteki hafa ekki fjallað um 2016-árganginn, en báðir gáfu 2015-árgangnum fimm stjörnur.

Finca Martelo Rioja Reserva 2016
Frábær kaup!
Finca Martelo Rioja Reserva 2016 er frábært vín sem nýtur sín vel með villibráð, spænsku pylsum og skinkum, góðri nautasteik og lambi, einkum ef það hefur haft viðkomu á grillinu, en er líka frábært eitt og sér.
5
95 stig

Vinir á Facebook