Tommasi Le Fornaci Rosé 2021

Tommasi-fjölskyldan á Ítalíu hefur búið til vín í 120 ár og farist það vel úr hendi. Giacomo Tommasi keypti sínar fyrstu vínekrur í Valpolicella og þar hefur hjarta Tommasi-fjölskyldunnar verið æ síðan. Vínhúsið hefur þó vaxið og dafnað og á nú vínekrur sem ná yfir tæpa 600 hektara og eru í Valpolicella, Lombardy, Toscana, Umbria, Manduria, Basilicata og á Sikiley. Úrval vína er talsvert og á heimasíðu Tommasi má finna 54 mismunandi vín frá áðurnefndum svæðum. Í hillum vínbúðanna er að finna 18 mismunandi vín í hefðbundinni flöskustærð frá Tommasi (rauð, hvít, rósa og freyðandi), auk hálfflaska með grappa og sætvíni og svo 5 kassavín. Unnendur Tommasi-vína hafa því úr nógu að velja í vínbúðunum.

Vín dagsins

Vín dagsins er rósavín, gert úr þrúgunum Turbiana (90%) og Rondinella (10%) sem koma af vínekrum í nágrenni Garda-vatns á Ítalíu. Þrúgurnar eru kramdar (hvor tegund fyrir sig) og safinn látinn liggja í rúma klukkustund með hýðinu. Þá voru þær pressaðar varlega (til fá ekki of mikinn lit í safann) og að því loknu var þeim blandað saman. Safinn var gerjaður við lágt hitastig (15-18°C) í stáltönkum, og vínið fékk svo að liggja í 4 mánuði í tönkunum fyrir átöppun.

Tommasi Le Fornaci Rosé 2021 er fölbleikt á lit, með angan suðrænum ávöxtum á borð við mangó og ananas, ásamt bleiku greipaldin, klementínuberki, ferskjum, rósum og steinefnum. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungssýru og létta fyllingu. Í frísklegu eftirbragðinu eru mangó, ananas, bleik greipaldin, klementínubörkur, ferskjur og steinefni. 88 stig . Góð kaup (2.999 kr). Njótið með fiskréttum, ljósu fuglakjöti, grænmetisréttum og pizzum, eða eitt og sér.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (107 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Tommasi Le Fornaci Rosé 2021
Góð kaup
Tommasi Le Fornaci Rosé 2021 fer vel með fiskréttum, ljósu fuglakjöti, grænmetisréttum og pizzum, en einnig ljómandi gott eitt og sér.
4
88 stig

Vinir á Facebook