Í gær fjallaði ég um rósavín frá CUNE í Rioja og það er því við hæfi að halda okkur um stund í Rioja og ræða næst rósavín frá öðru vínhúsi sem við þekkjum nokkuð vel – Muga. Vínekrur Muga-fjölskyldunnar ná yfir um 420 hektara. Allt framleiðsluferlið er að nálgast það að vera vottað sem lífræn framleiðsla, og eiturefni gegn skordýrum og illgresum eru aldrei notuð á vínekrum Muga. Ársframleiðslan er um 2 milljónir flaskna og það má vel segja að þó svo að Muga séu nútímalegt vínhús (lífræn ræktun og svoleiðis) þá eru þeir um leið frekar gamaldags eða íhaldssamir. Allt vínið frá Muga er gerjað og geymt í eikartunnum – engir stáltankar koma við sögu í víngerð Muga. Í kjallara Muga eru um 14.000 tunnur (90% úr franskri eik) sem almennt þykir nokkuð gott (þið munið samt að nýji „vínkjallarinn“ hjá Félix Solís rúmar 130.000 tunnur).
Vín dagsins
Rósavínið frá Muga er gert úr þrúgunum Garnacha og Viura. Líklega er eitthvað um aðrar þrúgur í blöndunni, því þrúgurnar koma af gömlum vínekrum í Alto Najerilla, sem er suður af Logroño. Þrúgurnar voru kramdar við komu í víngerðina og safinn fékk að liggja á hýðinu í um 5 klukkustundir áður en hann er pressaður. Safinn var svo gerjaður í eikartunnum og fékk að liggja í tunnum í rúma 2 mánuði fyrir átöppun.
Muga Rosado Rioja 2022 er laxableikt á lit með þægilega angan af rifsberjum, jarðarberjum, hindberjum, vatnsmelónum, grænum eplum, ferskjum, sítrónum og ananas, með smá steinefnum í lokin. Í munni er vínið þurrt, með ríflega sýru, gott jafnvægi og miðlungs fyllingu. Eftirbragðið þægilegt, með jarðarberjum, hindberjum, rifsberjum, greipaldin, ferskjur og smá hunang. 90 stig. Góð kaup (2.999 kr). Njótið með ljósu fuglakjöti, grænmetisréttum, fiskréttum og pasta, eða bara eitt og sér. Drekkið á næstu 2-3 árum.
Þessi árgangur er ekki kominn í vínbúðirnar (amk ekki skv. vef vínbúðanna) en er eflaust væntanlegur fljótlega. Meðaleinkunn Muga Rosado á Vivino eru 3,8 stjörnur (of fáar umsagnir um þennan árgang til að fá einkunn). Robert Parker hefur gefið fyrri árgöngum 87-90 stig en Wine Spectator 85-88 stig.