Vínhús Bouchard á sér nokkuð langa og merka sögu sem hófst fyrir tæpum 300 árum. Árið 1731 flutti textílkaupmaðurinn Joseph Bouchard til Bourgogne og hóf að versla með vín. Í Búrgúnd eru margir vínkaupmenn (négociant) sem kaupa þrúgur og/eða vín af litlum vínbændum og selja sem sín eigin. Bouchard gekk vel með vínkaupmennskuna en þegar Michel sonur hans tók við árið 1750 fór vínfyrirtækið af stað fyrir alvöru og það ár er almennt sagt vera stofnár vínhússins. Með tímanum stækkaði fyrirtækið og dafnaði, framleiðslan jókst og var flutt út til sífellt fleiri landa.
Í dag er ársframleiðsla Bouchard Aine & Fils um 4 milljónir flaskna og á hverju ári gerir vínhúsið 78 mismunandi vín – 45 rauðvín, 29 hvítvín, 3 rósavín og 1 freyðivín! Við Íslendingar höfum tekið þessum vínum vel, enda hafa þau sum hver verið í hillum vínbúðanna árum saman. Þegar þessi grein er skrifuð eru 10 vín frá Bouchard Aine & Fils fáanleg í vínbúðunum.
Vín dagsins
Áfram heldur rósavínsveislan! Vínið sem hér um ræðir kemur frá Bourgogne og því auðvitað um Pinot Noir að ræða (eina rauða þrúgan sem er leyfið í Bourgogne). Þrúgurnar eru tíndar af vínviðnum að næturlagi – þá er kaldara og það hjálpar til að varðveita sýruna í þrúgunum. Þrúgurnar eru pressaðar um leið og þær koma í hús og safinn er gerjaður við 18°C. Vín fær malólaktíska umbreytingu (sjá meira um það hér) og eftir smá hvíld í tönkunum er það sett á flöskur.
Bouchard Aîné & Fils Héritage du Conseiller Pinot Noir Rosé 2021 er föl-laxableikt á lit, með jarðarberjum, vatnsmelónum, hindberjum, steinefnum, bleiku greipaldin, rabarbara og kiwi í þægilegum ilminum. Í munni er ríflega miðlungssýra, miðlungsfylling og gott jafnvægi. Í munni kemur svipað bragð og í nefinu – jarðarber, vatnsmelóna, hindber, steinefni, rabarbari og kiwi. 87 stig. Mjög góð kaup (2.299 kr). Vínið nýtur sín vel eitt og sér, en fer líka vel með góðri skinku, salati, grilluðu fuglakjöti, skelfiski og sushi.
Það fer lítið fyrir umsögnum um þennan árgang. Meðaleinkunn annarra árganga á Vivino eru 3,6 stjörnur og Wine Enthusiast hefur gefið fyrri árgöngum 85-87 stig.