Hjónin Neal og Judy Ibbotson hafa ræktað vínvið í 45 ár. Þau gróðursettu sinn fyrsta vínvið árið 1978 og fyrstu árin var uppskeran seld til annarra vínframleiðenda. Það var nánast óhjákvæmilegt að þau myndu stofna sitt eigið vínhús, sem þau og gerðu. Fyrsta vínið kom á markað árið 1994 og síðan þá hefur saga Saint Clair verið ein samfelld sigurför. Ásamt því að eiga eigin vínekrur kaupir Saint Clair þrúgur af vínbændum í Marlborough (á norðureyjunni) og Hawkes Bay (á suðureyjunni).
Í gær sagði ég frá rósavíni sem gert er úr „grárri“ (hvítri) þrúgu og það sama á við um vínið sem hér er fjallað um. Pinot Gris er hvít þrúga og ég reikna með að flestir lesendur vínsíðunnar kannist við hvítvín úr þessari þrúgu. Til að fá bleikan blæ á vínið er örlitlu (um 5%) af Pinot Noir blandað saman við.
Saint Clair Family Estate Pinot Gris Rosé 2021 er fölbleikt á lit, með þægilega angan af melónum, jarðarberjum, hindberjum, bleiku greipaldin, sítrónum, perum, ferskjum og sumarblómum. Í munni er vínið þurrt, með frísklega sýru. Eftirbragðið endist ágætlega og þar má greina melónur, jarðarber, hindber, sítrónubörk, perur og ferskjur. 88 stig. Góð kaup (2.899 kr). Njótið með fiskréttum, fuglakjöti, salati og sushi, eða bara sem svalandi fordrykk.
Það fer lítið fyrir öðrum umsögnum um þetta vín, en Decanter gefur því 89 stig.