Ósjaldan hefur verið fjallað um Gerard Bertrand hér á Vínsíðunni, og auðvitað kemst ég varla í gegnum umfjöllun um rósavín án þess að Bertrand komi við sögu. Vínhús Gerard Bertrand er staðsett í Suður-Frakklandi, þar sem rósavínsframleiðsla (og neysla) er einna mest. Gerard Bertrand framleiðir á þriðja tug mismunandi rósavína sem kosta allt frá 11 upp í 220 evrur (ef keypt beint frá vínhúsinu og þá eru flutnings- og aðflutningsgjöldin eftir).
Vínið sem fjallað er um í dag kom fyrst á Vínsíðuna árið 2016, þegar ég gerði mína fyrstu rósavínsúttekt (sem þá var mjög lítil í sniðum). Það er gert úr þrúgunni Grenache Gris, sem er afbrigði af þrúgunni Grenache Noir (yfirleitt bara kölluð Grenache). Þessi þrúga er ljós nær allan vaxtartímann, en í lokin – þegar hún er fullþroskuð – getur hún tekið á sig rauð-gráan lit. Þrúgan er eiginlega stökkbreyting frá venjulegri Grenache og vex sennilega víða á vínekrum í Suður-Frakklandi. Fæstir vínbændur gefa henni sérstakan gaum, og yfirleitt er henni blandað saman við venjulegar Grenache-þrúgur. Einstaka vínbændur hafa þó kosið að rækta þrúguna sérstaklega, eða að halda henni til haga þar sem hún birtist inn á milli annarra Grenache-þrúga.
Gerard Bertrand hefur einmitt verið í forystu þeirra vínbænda í Suður-Frakklandi sem hafa lagt sig eftir að varðveita franska sögu og vínmenningu, og hluti þess starfs er að viðhalda þrúgum sem annars væru í útrýmingarhættu.
Vín dagsins
Vín dagsins er, eins og áður segir, gert úr þrúgunni Grenache Gris. Þrúgurnar eru handtíndar af vínviðnum og þær eru pressaðar um leið og þær koma í hús. Koldíoxíði er dælt yfir safann til að halda súrefni frá honum þar til gerjunin hefst. Vínið er gerjað við lágt hitastig (15-18°C) og fær svo að hvíla í tönkunum í nokkrar vikur fyrir átöppun.
Gerard Bertrand Gris Blanc 2021 er föl-laxableikt á lit. Lyktin er frekar lokuð, en það má þó greina melónur, perur, sítrónur, steinefni og smávegis af suðrænum ávöxtum. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru og gott jafnvægi. Bragðið er milt, og þar má einnig greina melónur, perur, sítrónur og smá nektarínur. 88 stig. Góð kaup (2.599 kr). Fer vel með skelfiski, léttari fiskréttum, sushi og ljósu fuglakjöt, eða bara eitt og sér.
Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (1171 umsögn þegar þetta er skrifað). Wine Enthusiast gefur þessu víni 90 stig.