Vínhús Villa Wolf á sér nokkuð langa sögu sem nær aftur til ársins 1756. Eflaust fer einhverjum sögum að því sem gerðist á fyrstu 240 árunum, en árið 1996 eignast Ernst Loosen vínhús Villa Wolf. Ernst Loosen er þekktastur fyrir vínhús Dr. Loosen, en vín Dr. Loosen eru okkur íslendingum að góðu kunn. Ernst Loosen hefur fylgt sömu stefnu í víngerðinni, þ.e. að hafa sem minnst inngrip í sjálfa víngerðina
Vínhúsið er staðsett í Pfalz-héraðinu í Þýskalandi. Pfalz er staðsett við landamæri Þýskalands að Frakklandi og er landfræðilega nánast beint framhald af Alsace. Haardt-fjallgarðurinn, sem skýlir Pfalz fyrir vestanvindum, er beint framhald af Vosges-fjöllunum, sem skýla Alsace fyrir sömu vindum og regni. Þessir fjallgarðar taka við stærstum hluta úrkomunnar sem þangað berst og fyrir vikið er Pfalz þurrasta vínhérað Þýskalands. Í þurru árferði geta þurrkar verið vandamál á vínekrum í Pfalz.
Pfalz er næst-stærsta vínhérað Þýskalands. Vínekrurnar ná yfir um 23.500 hektara lands og áætlað er að fjöldi vínbænda sé um 10.000. Um helmingur þeirra selur þrúgur sínar til stærri víngerða. Riesling er mest rækaða þrúgan í Pfalz – rúmlega 40% af heildarframleiðslunni. Dornfelder er mest ræktaða rauða þrúgan í Pfalz en Pinot Noir er um 14% af framleiðslunni og stærstur hlutinn fer í rauðvín. Pinot Noir frá Pfalz hafa verið að hasla sér völl í seinni tíð og skipa sér í röð bestu rauðvína Þýskalands.
Vín dagsins
Vín dagsins er gert úr Pinot Noir-þrúgum sem eru ræktaðar til þess að verða rósavín (ekki látið „blæða“ af víni sem verður svo að rauðvíni). Þrúgurnar eru kramdar og safinn látinn liggja í 4-6 klst á hýðinu til að taka í sig smá lit. Vínið var svo gerjað í stáltönkum og þess gætt að engin malolactic umbreyting ætti sér stað.
Villa Wolf Pinot Noir Rosé 2021 er laxableikt á lit. Í nefinu finnur maður jarðarber, hindber, hvítur pipar, perur, rauð epli, eplamauk, sítrónubörkur og appelsínubörkur. Vínið er með örlitla sætu, góða sýru og ágæta fyllingu. Eftirbragðið heldur sér nokkuð vel og þar má finna jarðarber, hindber, ferskjur, hvítan pipar, perur, rauð epli, eplamauk og appelsínubörk. 90 stig. Frábær kaup (2.499 kr). Njótið sem fordrykks á meðan verið er að grilla, eða með ljósu fuglakjöti, fiskréttum, salati, grænmetisréttum, pasta eða pinnamat. Sýnishorn frá innflytjanda.
Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (615 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Enthusiast gefur því 87 stig – Best Buy. Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur því 4,5 stjörnur og segir þetta frábær kaup. Vínið hlaut Gyllta Glasið 2022.