Barefoot White Zinfandel

Árið 1972 var Bob Trinchard, eigandi Sutter Home vínhússins í Kaliforníu, að fikra sig áfram við að bæta eitt af sínum bestu Zinfandel vínum. Hann vildi gera vínið kröftugra og prófaði því að fjarlægja hluta safans sem varð til þegar þrúgurnar voru pressaðar (Saignée-aðferðin). Útkoman var góð og hann fékk fínt Zinfandel-vín. Í staðinn sat hann uppi með nokkur hundruð lítra af vínberjasafa sem hann vissi ekki alveg hvað hann átti að gera við. Hann prófaði að gerja safann og fékk um 220 kassa af hvítu víni. Hann þurfti að gefa þessu víni nafn og niðurstaðan varð Hvítt Zinfandel eða White Zinfandel.

Vínið vakti litla lukku og næsta ár sleppti Bob því að búa til þetta vín. Hann prófaði þetta þó aftur (enda mjög ánægður með útkomuna hvað rauðvínið varðar), en þegar hann gerði þetta vín í þriðja skiptið lét hann það vera tvær vikur í eikartunnum. Þá fékk það óvænt á sig ljósbleikan lit og gerjunin stöðvaðist áður en sykurinn kláraðist en áfengis hlutfallið var ennþá lágt. Hann lét samt reyna á þetta og setti vínið á flöskur. Þá seldist vínið upp og Sutter Home hefur búið til hvítt Zinfandel á hverju ári eftir það.

Zinfandel getur verið erfið í ræktun. Á sama klasanum geta verið fullþroskuð, óþroskuð eða jafnvel ofþroskuð ber – allt á sama klasanum. Það getur því þurft að sortera þrúgurnar vel, einkum þegar gera á gæðavín. Zinfandel var lengi talin vera amerísk þrúga, en um síðustu aldamót varð ljóst að Zinfandel er í raun sama þrúga og hin ítalska Primitivo. Þetta olli bandaríkjamönnum nokkrum vonbrigðum, en þrátt fyrir þetta bakslag þá má eiginlega líta á Zinfandel sem ameríska þrúgu í dag, enda eru 99% af Zinfandel ræktaðar í Ameríku. Langstærstur hluti þeirrar ræktunar fer í White Zinfandel, sem selst í skipsförmum í Ameríku.

Vín dagsins

Hvítt Zinfandel er aðeins frábrugðið hefðbundnu,Evrópsku rósavíni, því það hefur almennt lægra áfengisinnihald (yfirleitt um 8-9%) og er yfirleitt aðeins sætt.

Barefoot White Zinfandel (án árgangs) er laxableikt á lit, með angan af niðursoðnum jarðarberjum, eplum, klementínum, ferskjum og ananas. Í munni er vínið millisætt, með ríflega miðlungssýru. Í eftirbragðinu eru jarðarber, rauð epli, klementínur, ferskjur og ananas. 86 stig. Góð kaup (1.599 kr). Drekkið kalt, gjarnan með ferskum ávöxtum, ostum, salati eða bara eitt og sér. Það er auðvelt að átta sig á því af hverju Barefoot White Zinfandel er mest selda rósavinið á Íslandi…

Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,6 stjörnur (14.425 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Barefoot White Zinfandel
Góð kaup
Barefoot White Zinfandel nýtur sín best kalt, gjarnan með ferskum ávöxtum, ostum, salati eða bara eitt og sér.
3.5
86 stig

Vinir á Facebook