Mateus The Original Rosé

Það er við hæfi að hefja yfirferðina um rósavín með umfjöllun um eitt þekktasta rósavínið á Íslandi. Ég býst við að flestir Íslendingar sem eru komnir yfir ákveðinn aldur kannist við Mateus, enda hefur það verið lengi í vínbúðunum. Þeir eru líka eflaust margir sem áttu sín fyrstu kynni við léttvín í Mateus. Vínið kemur frá Portúgal og hefur allt frá því það kom fyrst á markað fyrir 80 árum átt miklum vinsældum að fagna víða um heiminn.

Mateus Rosé kom fyrst á markað árið 1942. Vínhúsið Mateus var stofnað af Sogrape-fyrirtækinu og Fernando Van Zeller Guedes. Rósavínið vakti strax athygli, enda var það í öðruvísi flöskum en gengur og gerist. Stofnandinn Fernando Van Zeller Guedes var mjög öflugur og frumlegur í markaðssetningu vínsins. Hann naut aðstoðar sendiráða Portúgal víða um heim við að vekja athygli á vínunum, með góðum árangri.

Mateus The Original Rosé er ekki árgangsvín og það flokkast sem borðvín frá Portúgal. Það þýðir að þrúgurnar í vínið koma ekki frá tilteknu vínræktarsvæði, heldur koma þær af vínekrum víða um Portúgal. Þá getur það verið blanda vína frá mismunandi árgöngum, líkt og algengt er um kampavín. Útkoman er hins vegar stöðug og vínið er eins frá ári til árs. Mateus gerir ekki eingöngu rósavín, heldur einnig freyðivín og hvítvín.

Mateus The Original Rosé er gert úr þrúgunum Baga, Rufete, Tinta Barroca og Touriga Franca. Vínið er gerjað í stáltönkum við 16°C og að lokinni gerjun var það kælt niður (s.k. cold-stabilization) til að fella út vínsýrukristalla. Vínið er ljós-jarðarberjarautt á lit með einfaldan ilm af jarðarberjum og hindberjum. Í munni eru vínið aðeins sætt, með ríflega miðlungssýru og ögn af kolsýru. Ágætt eftirbragð með jarðarberjum, hindberjum, sítrónuberki og rauðum eplum. 85 punktar. Fer vel sem fordrykkur, eða með grænmetisréttum, fiskréttum, salati, ljósu fuglakjöti og fingrafæði. Kostar aðeins 1.899 króndur (10% áfengismagn). Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,7 stjörnur (47.784 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Mateus The Original Rosé
Mateus The Original Rosé fer vel sem fordrykkur, eða með grænmetisréttum, fiskréttum, salati og fingrafæði.
3.5

Vinir á Facebook