Matthiasson Cabernet Sauvignon Napa Valley 2019

Matthiasson-víngerðin var stofnuð árið 2003 af hjónunum Steve og Jill Matthiasson. Steve rekur ættir sínar til Íslands, eins og sjá má á nafninu, en forfeður hans bjuggu á Ströndum (nánar tiltekið á Skriðnesenni). Þau hjónin hafa ekki alltaf fetað troðnar slóðir í víngerðinni og rækta m.a. þrúgur á borð við Refosco og Ribolla Gialla. Þau hafa hins vegar verið brautryðjendur í lífrænni vínrækt og sjálfbærni á vínekrunum.

Þegar Matthiasson-hjónin hófu að framleiða eigin vín voru flest Napa-vín stórir og miklir boltar. Vínin voru sultuð og kraftmikil og áfengisinnihaldið oft um 15%. Vínin frá Matthiasson voru hins vegar með meiri sýru og lægra áfengisinnihald en flest önnur Napa-vín. Þó að vínin hafi verið frábrugðin venjulegum Napa-vínum þá vöktu þau engu að síður athygli og velgengni, enda hefur vínhúsið dafnað og stækkað.

Vinsældir lífrænnar ræktunar og sjálfbærni í vínrækt hafa aukist síðustu áratugi. Það er meðal annars fólgið í því að stuðla að fjölbreytileika í gróðri og lífríki vínekrunnar. Gras fær að vaxa á milli vínviða, fuglar fá að vera óáreittir (að mestu) og önnur ræktun er einnig stunduð við vínekrurar. Matthiasson ræktar t.d. einnig ferskjur á sínum vínekrum og býr til ferskjuvín. Þá hefur Matthiasson ræktað sinn vínvið á aðeins annan hátt en margir vínbændur í Napa. Vínviðurinn er látinn vaxa óvenju hátt og nánast upp í s.k. Pergola (myndar nánast mannhæðar há göng á vínekrunum). Þannig skýlir laufþakið þrúgunum fyrir sterku sólarljósinu og þrúgurnar halda betur í sýruna þegar þær þroskast. Annar ávinningur af þessu er fyrir starfsfólkið sem vinnur á vínekrunum, því það þarf ekki að bogra jafn mikið og annars við vinnu sína. Matthiasson hefur líka kosið að velja eldri og reyndari starfsmenn á vínekrur sínar (flestir þeirra eru komnir yfir fimmtugt og þá vill maður síður vera að bogra mikið og beygja sig niður…).

Steve Matthiasson hefur, eins og áður segir, verið brautryðjandi þessarar stefnu í Napa. Til marks um þá viðurkenningu sem hann hefur fengið fyrir þá vinnu var hann tilnefndur til hinna virtu James Beard-verðlauna 6 ár í röð (2014-2019) í flokknum Outstanding Wine, Spirits, or Beer Professional.

Vín dagsins

Vín dagsins er klassískt Cabernet Sauvignon frá Napa Valley. Það inniheldur dálítið af Merlot (5%), Cabernet Franc (5%), Malbec (2%) og Petit Verdot (1%), og þrúgurnar koma af 6 vínekrum í Napa. Vaxtarskilyrði sumarið 2019 voru mjög góð og flestir framleiðendur fengu mjög góðar þrúgur að vinna með. Þrúgurnar í þessu víni voru gerjaðar í opnum tönkum við tiltölulega lágt hitastig, og hrært í víninu tvisvar á dag til að ná meiri lit og tannínunum úr þrúgunum. Að lokinni gerjun fór vínið á tunnur í 20 mánuði (flestar tunnurnar höfðu verið notaðar áður, en um 20% voru nýjar tunnur úr franskri eik). Áfengisinnihaldið er aðeins um 13%, sem er frekar lágt í samanburði við önnur Cabernet-vín frá Napa.

Matthiasson Cabernet Sauvignon Napa Valley 2019 er með djúpan, rúbínrauðan lit og þéttan ilm af sólberjum, kirsuberjum, plómum, eik, vanillu, tóbaki og brómberjum. Ríflega miðlungstannín, góð sýra og góð fylling. Eftirbragðið er langt og inniheldur sólber, kirsuber, plómur, eik, vanillu og smá tóbak. 92 stig. Mjög gott vín sem fer vel með góðri steik. Fæst hjá USA-vín en einnig hægt að sérpanta hjá vínbúðunum (10.979 kr).

Notendur Vivino gefa þessu víni að meðaltali 4,3 stjörnur (184 umsagnir þegar þetta er skrifað). James Suckling gefur víninu 93 stig.

Matthiasson Cabernet Sauvignon Napa Valley 2019
Matthiasson Cabernet Sauvignon Napa Valley 2019 er mjög gott vín sem fer vel með góðri steik.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook