Héraðið Ribera del Queiles er ekki í hópi þekktustu vínhéraða Spánar. Þetta er lítið hérað á norður-Spáni, nánar tiltekið við Zaragoza, á milli Navarra og Aragon sem eru betur þekkt í spænskri víngerð. Ribera del Queiles hefur þó verið að hasla sér völl fyrir vönduð vín á góðu verði. Nafnið vísar til árinnar Queiles, sem rennur í gegnum vínhéraðið. Svæðið er heitt og þurrt og hentar vel til vínræktar, þar sem lítil hætta er á frosti eða sjúkdómum í vínviðnum.
Í Ribera del Queiles eru eingöngu gerð rauðvín úr spænskum og alþjóðlegum þrúgum. Tempranillo, Garnacha og Graciano eru víða ræktaðar, ásamt Cabernet Sauvignon, Merlot og Syrah. Flest vín eru blöndur í ýmsum hlutföllum, en eitthvað er um einnar-þrúgu vín. Reglur héraðsins kveða á um að áfengismagnið verði að ná 11% og það er sjaldnast vandamál þar sem þrúgurnar ná yfirleitt fullum þroska við þau góðu vaxtarskilyrði sem þarna ríkja.
Vín dagsins
Vínhús Guelbenzu var stofnað árið 1851 og var fljótlega eitt fremsta vínhús Ribera del Queiles. Vínviður er ræktaður á 46 hektörum lands og þar er að finna allar þær þrúgur sem nefndar eru hér að ofan.
Vínið dagsins er gert úr Syrah, Cabernet Sauvignon, Graciano og Tempranillo. Að lokinni gerjun í stáltönkum fékk vínið að liggja í 10 mánuði á tunnum úr amerískri (50%) og franskri (50%) eik.
Guelbenzu Azul Finca La Lombana 2019 hefur djúpan rúbínrauðan lit. Þéttur ilmur af rauðum kirsuberjum, plómum, rifsberjum, svörtum pipar, vanillu, leðri, sedrusvið, negul og ristuðu brauði. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt og með þétt tannín. Góð fylling, gott jafnvægi og miðlungslangt eftirbragð með kirsuberjum, plómum, pipar, vanillu, leðri, sedrusvið og negul. 89 stig. Mjög góð kaup (2.999 kr). Vínið er tilbúið til neyslu núna en þolir eflaust nokkur ár til viðbótar í kælinum. Fer vel með svínakjöti, fuglakjöti, grilluðu lambi og pottréttum.
Notendur Vivino gefa þessu víni 3,8 stjörnur (132 umsagnir þegar þetta er skrifað).