Cahors

Sveitarfélagið Cahors (h-ið er þögult og nafnið borið fram Ca-ors) er staðsett í suður-Frakklandi, nánar tiltekið í héraðinu Lot, sem er minnst þeirra héraða sem saman mynda Occitaniu. Cahors á langa og merka sögu sem byrjar fyrir tíma Rómverja. Þar eru margar merkar byggingar, þekktust þeirra er líklega Valentré-brúin sem er á heimsminjaskrá Unesco. Brúnin nær yfir ána Lot sem rennur um vínhéruð Cahors. Þorpið er líka þekkt fyrir vín og matargerð, einkum fyrir trufflur og foie gras.

Vínsagan

Víngerð í Cahors hefur líklega hafist með Rómverjunum, líklega um 50 fyrir Krist. Vínin frá Cahors þóttu rómuð fyrir gæði á miðöldum (vínið var kallað svarta vínið) og allt fram að phylloxera-faraldrinum sem gekk yfir Cahors 1883-1885. Þá fór héraðið líka illa út úr frostavetrinum 1956 þegar nær allur vínviður héraðsins drapst. Malbec hefur lengi verið ráðandi í Cahors (þar kallast þrúgan einnig Côt eða Auxerrois), en eftir þennan frostavetur þurftu flestir vínbændur að gróðursetja vínvið og í kjölfarið jókst hlutur Malbec enn frekar.

Vínbændur í Bordeaux notuðu lengi vel vín frá Cahors til íblöndunar í Bordeaux-vín, einkum ef Bordeaux-vínin vantaði lit og tannín. Þá máttu vínbændur í Cahors ekki selja vínin sín fyrr en vínbændur í Bordeaux voru búnir að selja sín vín.

Cahors var skilgreint sem Appellation d’origine contrôlée árið 1971. Innan Cahors AOC eru um 4.300 hektarar af vínekrum. Fyrir phylloxera-faraldurinn voru vínekrurnar hins vegar á um 80.000 hektörum þegar mest lét.

Þrúgur

Í reglum Cahors AOC kemur fram að aðeins er hægt að gera rauðvín undir merkjum Cahors AOC, og þau skulu vera minnst 70% Malbec. Flest vín eru nær 100% Malbec en einnig er heimilt að nota Merlot og Tannat. Rauðvín eru um 60% allra vína sem gerð eru í Cahors. Cahors hefur þá sérstöðu meðal vínhéraða í suðvestur Frakklandi að það er eina héraðið þar sem hvorki er heimilt að nota Cabernet Sauvignon né Cabernet Franc.

Í rauðvín og hvítvín (sem bæði flokkast Vin de Pays du Lot eða Côtes du Lot IGP) er heimilt að nota þrúgur á borð við Abouriou, Alicante Bouschet, Cabernet Franc, Cabernet Sauvignon, Cinsaut, Malbec, Gamay, Jurancon Noir, Merlot, Muscat de Hamburg, Segalin, Syrah og Tannat.

Vínin eru almennt með nokkuð kröftuga angan, bragðmikil og þétt.

Vínsvæði

Cahors AOC er eina skilgreinda AOC-vínsvæðið í Lot, en vín sem gerð eru fyrir utan Cahors AOC flokkast sem Côtes du Lot IGP. Aðeins er heimilt að gera rauðvín undir merkjum Cahors AOC. Rósavín og hvítvín sem gerð eru á svæðinu flokkast ýmist sem sveitavín frá Lot (Vin de Pays du Lot) eða sem Côtes du Lot IGP.

Staðan í vínbúðunum

Þegar þetta er skrifað eru því miður engin vín frá Cahors fáanleg í vínbúðunum.

Vinir á Facebook