Paco y Lola Albariño 2021

Þrúgan Albariño virðist ekki vera mjög vinsæl á meðal íslenskra vínkaupenda, a.m.k. ekki ef marka má sölutölur ÁTVR fyrir síðasta ár. Samkvæmt vef vínbúðanna er hægt að nálgast 10 mismunandi Albariño í vínbúðunum, en 3 þeirra þarf reyndar að sérpanta. Þegar rýnt er í sölutölur fyrir árið 2022 sést að í fyrra seldust 991 flaska af Albariño af alls 786.000 seldum hvítvínsflöskum, eða 0,13%. Það er í raun ótrúleg synd að Albariño skuli ekki hafa hlotið meiri athygli hjá íslenskum vínkaupendum, því það er leitun að matarvænni hvítvínum.

Albariño (eða Alvarinho eins og hún kallast í Portúgal) er einkum ræktuð í Rias Baixas á norðvestur horni Spánar, og í Vinho Verde í Portúgal. Undanfarin ár hefur hún reyndar haslað sér völl á vínekrum í Kaliforníu, Oregon og Washington. Þrúgan gefur af sér létt, aromatísk hvítvín með apríkósu- og ferskjutónum. Þrúgan er auðveld í ræktun og þrífst vel í sjávarloftslagi. Það er því talið líklegt að hún nái einnig að nema land í Frakklandi og Bretlandi á næstu árum og áratugum.

Vín dagsins

Í WSET-3 náminu þurfum við að smakka Albariño og þetta vín fékk ég hjá RJC. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Paco y Lola Rias Baixas Albariño 2021 er fölgul, unglegt og með miðlungsþéttan ilm af hunangi, kamillublómum, ferskjum, apríkósum, eplum, límónum, ananas, fennel, gras, aspas, smá seltu, rjóma og brauðdegi. Vínið er þurrt, sýruríkt og með miðlungs fyllingu. Eftirbragðið er nokkuð þétt, með hunang, ferskjur, apríkósur, epli, límónur, ananas og fennel, og það endist nokkuð vel. Vínið er tilbúið til neyslu núna en þolir eflaust nokkurra ára geymslu. 90 stig. Góð kaup (3.790 kr). Fer vel með fuglakjöti, pasta, ostum og sjávarréttum hvers konar.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (301 umsögn þegar þetta er skrifað). Tim Atkin gefur þessu víni 90 stig og sömu einkunn fékk vínið í Decanter World Wine Awards. Wine Spectator gefur víninu 89 stig. Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur víninu fjórar og hálfa stjörnu.

Paco y Lola Albariño 2021
Góð kaup
Paco y Lola Rias Baixas Albariño 2021 fer vel með fuglakjöti, ostum og sjávarréttum hvers konar.
4
90 stig

Vinir á Facebook