Nýlega skrifaði ég um Antica Fratta Franciacorta Brut, sem er ljómandi gott freyðivín frá Franciacorta, gert með kampavínsaðferðinni. Hér er fjallað um árgangsvín frá sama framleiðanda – annar ljómandi góður valkostur við kampavín til að skála í um áramótin.
Antica Fratta Franciacorta Essence Brut 2016 er gert úr Chardonnay (90%) og Pinot Nero (10%) og fékk að liggja í 36 mánuði með gerinu (lágmarkið fyrir árgangs-Franciacorta eru 30 mánuðir). Vínið er fölgult á lit og freyðir fínlega. Í nefinu er blómlegur ilmur með sítónum, ferskjum, grænum eplum, perum, möndlum, brioche-brauði og steinefnum. Í munni er góð fylling og ríflega miðlungs sýra. Möndlur, ferskjur, sítrónur, ger, epli, perur og smá eik. 93 stig. Frábær kaup (4.990). Steinliggur með sushi, skelfiski, foie gras eða bara eitt og sér. Tilvalið um áramótin!
Vínið hefur ekki fengið nægilega margar umsagnir á Vivino til að fá meðaleinkunn og hefur ekki fengið umfjöllun helstu vínskríbentanna. Robert Parker gaf 92-árgangnum 92+.