Áfram heldur umfjöllunin og nú ætla ég að klára restina af kampavínunum sem ég hef smakkað á þessu ári.
Þetta vín smakkaði ég í Brussel s.l. vor. Hér er á ferðinni vín frá litlum framleiðanda sem ég veit frekar lítið um, annað en að fjölskyldan hefur stundað vínrækt í tæp 400 ár. Fyrstu árin voru einkum gerð rauðvín, en þegar kampavín leit dagsins ljós var áherslum breytt og nú gerir fjölskyldan aðeins kampavín. Alls á fjölskyldan um 4 hektara af vínekrum, þar sem 2/3 vínviðarins er Pinot Meunier, fjórðungur er Chardonnay og restin Pinot Noir, en auk þess er ræktað lítilræði af þrúgunni Arbane sem einnig má nota í kampavín.
Champagne D’ Marc Grande Reserve Brut er gert úr Pinot Meunier (70%), Chardonnay (20%) og Pinot Noir (10%). Vínið er fallega gullið og freyðir fínlega. Í nefinu finnur maður heslihnetur, epli, sítrus og brioche. Í munni eru fínar búbblur, góð sýra og ágætur ávöxtur. Sömu bragðtónar koma fram í eftirbragðinu – heslihnetur, epli, sítrus og brioche. Fer vel með flestum mat – einkum fiski, fuglakjöti, foie gras eða bara eitt og sér.
Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (69 umsagnir þegar þetta er skrifað).