Brancaia TRE 2019

Allt frá því að ég smakkaði 2007-árganginn af TRE hefur það verið í uppáhaldi hjá mér. Það vín lenti í 10. sæti á topp 100-lista Wine Spectator, og þó að seinni árgangar hafi ekki náð sömu hæðum þá hefur ég alltaf kunnað að meta þetta þá. Um tíma var vínið fáanlegt í vínbúðunum en það sló því miður ekki jafn vel í gegn hjá landanum og það gerði hjá mér.

Þetta vín flokkast sem IGT og má í raun kalla það super-Toscana, því það er gert úr 80% Sangiovese, 10% Cabernet Sauvignon og 10% Merlot. Að lokinni gerjun er það látið þroskast í eitt ár á frönskum eikartunnum og í steyptum tönkum.

Brancaia TRE 2019 er rúbínrautt, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, hindber, sólber, plómur, súkkulaði, sedrusvið og smá appelsínubörk. Vínið hefur ríflega miðlungssýru, miðlungs tannín og góða fyllingu. Vínið er tilbúið til neyslu og ekki ætlað til langrar geymslu. 90 stig. Fer vel með pastaréttum, ljósu fuglakjöti (grilluðu eða steiktu) og steiktum fiski.

James Suckling gefur þessu víni 92 stig. Notendur Vivino gefa því 3,8 stjörnur (1324 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Brancaia TRE 2019
Góð kaup
Brancaia TRE 2019 fer vel með pastaréttum, ljósu fuglakjöti (grilluðu eða steiktu) og steiktum fiski.
4
90 stig

Vinir á Facebook