Beaujolais Nouveau-dagurinn er í dag! Þriðja fimmtudag í nóvember ár hvert er vínbændum í Beaujolais heimilt að hefja sölu á Nouveau-vínum sínum. Fyrir 25-30 árum eða svo var mikið húllumhæ á vínbörum í Evrópu þegar þessi vín komu í sölu. Í einhver skipti var vínunum flogið með Concorde-þotum yfir Atlantshafið til að hægt væri að fagna þessum degi á austurströnd Bandaríkjanna.
Vinsældirnar dvínuðu hins vegar og með því minnkuðu einnig vinsældir hefðbundinna Beaujolais-vína, með þeim afleiðingum að salan minnkað talsvert. Margir kölluðu vínin þunn og ómerkileg, og það álit færðist að hluta yfir á venjuleg Beaujolais-vín. Slíkur samanburður er ákaflega ósanngjarn. Vínin koma reyndar frá sama stað og eru úr sömu þrúgu – Gamay – en þar með líkur samanburðinum.
Beaujolais Nouveau á sér langa sögu sem nær aftur til fyrri hluta 19. aldar. Bændur gerðu sér glaðan dag þegar uppskera var komin í hús og drukku þá ung vín sem höfðu verið gerð úr uppskeru sama árs. Í Frakklandi er víða heimilt að búa til vin de primeur – ung vín sem má selja strax sama haust og þau eru búin til (þetta er leyft í 55 héruðum Frakklands).
Reglur kveða á um að þrúgur í Beaujolais Nouveau skulu vera handtíndar og þær skulu gerjast með carbonic maceration, þar sem þær eru ekki kramdar fyrir gerjun heldur gerjaðar heilar. Neðstu þrúgurnar í tönkunum kremjast auðvitað undan þunga þrúganna ofar og þannig hefst gerjunarferlið sem berst upp til þrúganna ofar. Tankarnir eru fylltir með koldíoxíði til að fjarlægja súrefni sem annars myndi skemma þrúgurnar og vínið. Með þessari gerjunaraðferð verða vínin mjög ávaxtarík og innihalda lítið af tannínum (þau eru jú að mestu í hýði þrúganna).
Áður fyrr var hægt að nálgast nokkur mismunandi Beaujolais Nouveau í vínbúðum hérlendis, en nú sýnist mér að aðeins eitt vín verði á boðstólum frá og með deginum í dag.