Castillo Perelada Finca Espolla 2017

Ég hef oft verið spurður að því hvert sé mitt uppáhaldsvín. Sennilega hef ég gefið mismunandi svör í hvert sinn, því ég er frekar mikill sveimhugi þegar vín eru annars vegar og dagsformið ræður miklu um hvert svarið er hverju sinni. Það er þó líklegra en ekki að vínið sem nefnt er hverju sinni komi frá Spáni (Rioja, Toro, Ribera del Duero) eða Ítalíu (Piemonte), jafnvel Þýskalandi (vínin frá Markus Molitor koma oft upp í hugann). Stundum ræðst svarið af því hvað ég hef hugsað mér að hafa í matinn.

Þeir sem þekkja mig vita að ég er mjög duglegur að grilla, og með góðri steik er gott að fá sér glas af góðu rauðvíni. Ef steikin er vel krydduð þarf vínið að vera kröftugt til að ráða við steikina (það mega þó ekki vera átök milli matar og víns). Eitt af því sem mér þykir ákaflega gaman að grilla er rib-eye cap í black garlic marineringu. Oftar en ekki verður þá spænskt vín fyrir valinu og þá getur verið gaman að leita út fyrir þekktustu héruð Spánar og þá geta vínin frá Emporda passað vel með.

Emporda á sér langa víngerðarsögu, líkt og flest vínhéruð Spánar. Emporda er lítið hérað í norðaustur horni Katalóníu og liggur að landamærum Frakklands (hinum megin við landamærin eru frönsku vínhéruðin Banyuls og Roussillon), Lengst af var héraðið þekkt fyrir sterk sætvín, en á 20. öldinni fór áherslan því miður að snúast meira um magn en gæði. Þetta hefur þó sem betur fer breyst til hins betra og nú koma prýðisgóð vín frá Emporda, mörg hver frá litlum vínhúsum. Stærstur hluti framleiðslunnar eru rauðvín (60%) en þaðan koma einnig hvítvín (19%), rósavín (17%) og Cava (4%). Rauðvínin eru að mestu leyti úr Samsó (Carignan) og Garnatxa negró (Grenace) en einnig má nota þrúgur á borð við Cabernet Sauvignon, Merlot, Syrah, Monastrel o.fl. Hvítvínin eru helst úr Garnatxa blanca og Viura/Macabeu en einnig má nota Chardonnay, Xarel-lo, Gewurztraminer o.fl.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá Castillo Perelada, sem rekur sögu sína aftur til miðalda. Þetta vín er s.k. einnar ekru vín, þ.e. þrúgurnar koma allar af sömu vínekru. Finca Espolla nær yfir 21 hektara og þar vaxa Monastrell og Syrah. Árgangur dagsins er úr báðum þessum þrúgum (58% Montastrell og 42% Syrah). Að lokinni gerjun var vínið látið liggja í 22 mánuði á nýjum, frönskum eikartunnum.

Castello Perelada Finca Espolla 2017 er dökkkirsuberjarautt á lit, djúpt með byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður sætan kirsuberjailm, með vanillu, plómum, kakó, leðri og balsamtónum. Í munni eru ríflega miðlungstannín, góð sýra og þéttur ávöxtur. Plómur, lakkrís, balsam og kakó í kröftugu en þægilegu eftirbragðinu. 92 stig. Góð kaup (5.555 kr). Steinliggur með grilluðu nautakjöti en ræður líka við íslenska lambið og léttari villibráð.

Castillo Perelada Finca Espolla 2017
Góð kaup
Castello Perelada Finca Espolla 2017 steinliggur með grilluðu nautakjöti en ræður líka við íslenska lambið og léttari villibráð.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook