Vínsíðan tók sér óvenjulangt sumarfrí í ár, þ.e. frí frá ritstörfum. Sumarið var nýtt í sólpallasmíði, utanlandsferðir, stórafmæli, veiði og afslöppun. Á þessum tíma náði ég samt að smakka mörg skemmtileg og áhugaverð vín sem ég næ vonandi að gera skil hér á síðunni á næstu vikum.
Síðasta færsla á Vínsíðunni var birt 29. júlí, eða fyrir rúmum 2 mánuðum. Síðan þá hef ég skannað inn um 60 vín inn í Vivino og skráð hjá mér lýsinu á flestum þeirra. Það er því efniviður í ansi margar færslur og frá mörgu að segja. Frá sjónarhorni Vínsíðunnar er áhugaverðasta ferðalag sumarsins án efa ferðin á Terra Madre Salon del Gusto 2022 í Tórínó. Þar náðum við að smakka fjölda úrvalsvína og kynntumst ítalskri matarmenningu betur. Það því við hæfi að fyrsti pistillinn eftir þetta langa sumarfrí sæki efniviðinn í þá ferð.
Luciano Sandrone Barolo Le Vigne árgangasmökkun
Á Terra Madre-hátíðinni fórum við í árgangasmökkun á Barolo Le Vigne frá Luciano Sandrone. Sandrone stofnaði sína eigið vínhús árið 1978, ári eftir að hann keypti vínekru í Cannubi í Barolo. Hann hafði í mörg ár unnið hjá öðru vínhúsi í Barolo og lærði þar allt sem þurfti að læra um víngerð. Fyrstu vínin bjó hann til í bílskúr foreldra sinna en eftir að hafa farið með vínin sín á Vinitaly-vínsýninguna árið 1982 fóru hjólin að snúast fyrir alvöru. Hann seldi allan 1982-árganginn sinn til dreifingaraðila í Bandaríkjunum og fékk þá fjármuni til að geta byggt eigin víngerð og keypt fleiri vínekrur. Smám saman hefur vínhúsið dafnað og stækkað og gerir nú 6 mismunandi rauðvín, þar af 3 Barolo.
Í árgangasmökkuninni fengum við að smakka 6 mismunandi árganga af Barolo Le Vigne – 2016, 2014, 2007, 2002, 2001 og 1999. Þrúgurnar í þessi vín koma af fjórum vínekrum Sandrone í Barolo – Baudana í Serralunga d’Alba, Villero í Castiglione Falletto, Vignane í Barolo og Merli í Novello. Þrúgur ekranna eru látnar gerjast og þroskast hver í sínu lagi og lokablöndun á sér stað fyrir átöppun.
Barolo-vín eru ávallt 100% Nebbiolo og reglur kveða á um að þau þurfi að vera orðin 4 ára gömul áður en heimilt er að selja þau. Barolo Riserva þurfa svo að vera orðin 5 ára gömul áður en þau fara í sölu. Flest Barolo-vín hafa hins vegar gott að því að fá að þroskast aðeins lengur, og að mínu mati eru þau best þegar þau eru um 10-15 ára.
Luciano Sandrone Barolo Le Vigne 2016 er með klassískan ilm af nýju leðri, tjöru, kirsuberjum, tóbaki og lakkrís. Í munni er fullt af tannínum og sýru. Miðlungs fylling með kirsuberjum, rifsberjum, tóbaki og mildri eik í góðu eftirbragði sem endist vel. 93 stig.
Luciano Sandrone Barolo Le Vigne 2014 er nokkuð frábrugðin 2016, með plómur, leður og eik í nefinu. Tannínin eru farin að mýkjast, sem og sýra, en ávöxturinn er fínn. Kirsuber, leður, eik og kakó í eftirbragðinu sem er aðeins kröftugra en í 2016 árgangnum. 91 stig.
Luciano Sandrone Barolo Le Vigne 2007 sýnir góðan þroska, með leður, kakó, eik, plómur og rifsber í nefinu. Tannínin enn nokkuð þétt, sýran góð og jafnvægið flott. Tóbak, leður og eik í eftirbragðinu sem er farið að mýkjast nokkuð. 92 stig.
Luciano Sandrone Barolo Le Vigne 2002 er orðið vel þroskað, en samt er enn nóg eftir af tannínum og sýru. Ávöxturinn hins vegar farinn að dala nokkuð. Eik, tjara og leður enn áberandi í nefi og eftirbragði, en í nefinu má samt líka finna smá rósailm og kirsuber. 92 stig.
Luciano Sandrone Barolo Le Vigne 2001 er einnig orðið vel þroskað, með klassískan Barolo-ilm – tjara, leður og tóbak. Fyllingin er farin að minnka nokkuð. Leður og tóbak ráðandi í mjúku eftirbragðinu sem endist glettilega lengi. 90 stig.
Luciano Sandrone Barolo Le Vigne 1999 er komið á seinni hlutann og orðið vel þroskað. Hér má greina sveskjur, tjöru, leður og tóbak í nefinu. Sveskjan er líka farin að sýna sig í eftirbragðinu en annar ávöxtur lætur minna fyrir sér fara. 90 stig.