Coto de Imaz Rioja Gran Reserva 2015

Það hefur verið nokkuð áberandi frönsk og spænsk slagsíða á Vínsíðunni undanfarið ár og ekki að ástæðulaust. Þaðan hafa hvert gæðavínið á eftir öðru, enda verið einstaklega góðir árgangar á þessum slóðum. Það er því alveg full ástæða til að halda áfram á sömu braut og halda áfram að fjalla um spænsk og frönsk rauðvín. Kannski eiga þó vín frá öðrum svæðum eftir að slæðast með í umfjöllun…

Föstudagar eru grilldagar á mínu heimili (líkt og svo margir aðrir dagar, reyndar…). Oftar en ekki er það rautt kjöt sem ratar á grillið mitt og hvað er betra en að fá sér gott rauðvín með góðri steik? Fyrir mig er fátt betra með steikinni en gott Rioja-vín. Almennt vel ég oftast Reserva með steikinni en auðvitað fer það eftir sjálfri steikinni hvað hentar best.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi El Coto í Rioja. Fyrir skömmu fjallaði ég um Reserva 2017 frá El Coto, sem er á meðal bestu kaupa í vínbúðunum um þessar mundir. vín dagsins er Gran Reserva í sömu línu frá El Coto, sem kallast El Coto de Imaz. Líkt og reglur kveða á um, þá var vínið látið liggja í 2 ár á tunnum (franskar og amerískar eikartunnur) og svo að lágmarki 3 ár á flösku áður en heimilt var að hefja sölu. Hér er um að ræða 2015-árganginn, sem hefur því verið um 5 ár í flösku þegar þetta er skrifað. Vínið er að mestu gert úr Tempranillo en í því er líka örlítið af Graciano. Ársframleiðslan er um 20.000 flöskur.

Coto de Imaz Rioja Gran Reserva 2015 er rúbínrautt á lit, með ágætan þroska og góða dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, vanillu, eik, skógarber og kakó. Í munni eru miðlungstannín, ágæt sýra og góður ávöxtur. Vínið er í góðu jafnvægi og eftirbragðið er langt og mjúkt, með kirsuber, rifsber, tóbak og vanillu. 90 stig. Mjög góð kaup (3.899 kr). Fer vel með grilluðu lambi, nauti og léttari villibráð. Sýnishorn frá innflytjanda.

Wine Spectator gefur þessu víni 92 stig. Notendur Vivino gefa því 4,2 stjörnur (1.092 umsagnir þegar þetta er skrifað)

Coto de Imaz Rioja Gran Reserva 2015
Mjög góð kaup!
Coto de Imaz Rioja Gran Reserva 2015 er ljómandi gott vín sem fer vel með grilluðu lambi, nauti og léttari villibráð
4
90 stig

Vinir á Facebook