Marques de Murrieta Rioja Gran Reserva 2015

Marques de Murrieta tilheyrir eldri vínhúsum Rioja-héraðs og fagnar 170 árum nú í ár. Vínin frá Murrieta hafa löngum verið þekkt fyrir gæði og það hlaut að koma að því að vín frá þeim yrði valið vín ársins hjá Wine Spectator. Sá heiður féll þeim í skaut árið 2020 þegar Ygay Gran Reserva Special Edition 2010 var valið vín ársins. Svoleiðis vín kaupir maður auðvitað ekkert í næstu vínbúð, en það fær maður hins vegar annað frábært vín frá Murrieta – Reserva 2016, sem er með betri kaupum í vínbúðunum.

Vínhús Murrieta á sér nokkra sérstöðu í Rioja, því þeir gera ekkert Crianza-vín. Grunnvínið þeirra er áðurnefnt Reserva, en ársframleiðslan á því er rétt um 1 milljón flöskur og hreint ótrúlegt að þeir geti gert slíkt gæða vín í þessu magni ár eftir ár.

Vín dagsins

Nýlega var ég svo lánsamur að eignast flösku af Gran Reserva 2015 frá Marques de Murrieta. Líkt og önnur toppvín Murrieta þá er Gran Reserva aðeins framleitt í góðum árgöngum. Sé uppskeran ekki nógu góð er Gran Reserva ekki búið til það árið.

Vínið er blandað úr þrúgunum Tempranillo (80%), Graciano (9%), Mazuelo (9%) og Garnacha (2%). Að lokinni gerjun er það látið liggja í 27 mánuði í 225-lítra tunnum úr franskri eik. Ársframleiðslan er um 62.400 flöskur, ásamt 1400 magnum-flöskum og 150 Jereboam (3 lítra).

Marques de Murrieta Rioja Gran Reserva 2015 er djúprautt á lit, með góða dýpt og byrjandi þroska. Í nefinu er dásamlegur ilmur af vanillu, leðri, eik, kakó og tóbaki. Í munni er fullt af tannínum, góð fylling og sýran er akkúrat passleg. Vanilla, leður, plómur, rauð ber og tóbak í þéttur og góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel og lengi. 96 stig. Frábært vín sem steinliggur með góðri nautasteik, grilluðu lambi, villibráð eða bara eitt og sér.

James Suckling gefur þessu víni 98 stig og Robert Parker gefur því 94 stig.

Marques de Murrieta Rioja Gran Reserva 2015
Frábært vín
Marques de Murrieta Rioja Gran Reserva 2015 er frábært vín sem steinliggur með góðri nautasteik, grilluðu lambi, villibráð eða bara eitt og sér.
5
96 stig

Vinir á Facebook