Montecillo Rioja Reserva 2014

Lesendur Vínsíðunnar hafa eflaust orðið varir við það að hlutur spænskra vína hefur verið nokkuð áberandi undanfarin ár. Það skýrist meðal annars af því að við höfum verið svo heppin að fá hvern góðan árganginn á eftir öðrum, en að mestu skýrist það líklega af því hversu hrifinn ég hef verið af spænskum vínum – einkum frá Rioja.

Frá árinu 2008 hafa allir árgangar í Rioja fengið minnst 88 stig í einkunn hjá Wine Spectator (þ.e. einkunn héraðsins fyrir árganginn) að einum undanskildum (2017 fékk „bara“ 87 stig), og helmingur árganganna hefur fengið 90+. Árið 2014 fékk 89 stig í einkunn og telst samkvæmt því vera mjög góður. Sömu sögu er að segja um árgangseinkunn Rioja hjá Robert Parker – þar hafa aðeins tveir árgangar fengið minna en 90 stig síðan 2007 (2014 fær 91 stig hjá Robert Parker).

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Montecillo, sem hefur lengi verið vinsælt á Íslandi og skyldi engan undra. Vín dagsins er Reserva, að mestu gert úr Tempranillo (92%) en í því er einnig að finna smávegis af Mazuelo (8%). Að lokinni gerjun var vínið látið liggja á tunnum úr franskri (65%) og amerískri eik (35%) – Tempranillo var 24 mánuði í tunnum og Mazuelo í 22 mánuði. Vínið var blandað eftir dvölina í tunnunum og að lokinni átöppun hefur það fengið að hvíla minnst 2 ár á flöskum.

Montecillo Rioja Reserva 2014 er kirsuberjarautt á lit, með örlítinn þroska. Í nefinu finnur maður plómur, vanillu, leður, kirsuber og brómber ásamt smá kaffi og tóbaki. Í munni eru ríflega miðlungs tannín, ágæt sýra og góður ávöxtur. Kirsuber. leður, vanilla, mynta og krydd í góðu eftirbragðinu sem heldur sér nokkuð vel. 89 stig. Mjög góð kaup (2.999 kr). Fer vel með góðum steikum, sérstaklega þeim sem hafa haft viðkomu á grillinu, en einnig ostum, skinkum og góðum pottréttum. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessum árgangi 3,7 stjörnur (XXXX umsagnir þegar þetta er skrifað). Þessi árgangur hefur ekki enn hlotið einkunn hjá Wine Spectator en fyrri árgangar hafa verið að fá 88-92 stig undanfarin ár.

Montecillo Rioja Reserva 2014
Mjög góð kaup
Montecillo Rioja Reserva 2014 fer vel með góðum steikum, sérstaklega þeim sem hafa haft viðkomu á grillinu, en einnig ostum, skinkum og góðum pottréttum.
4
89 stig

Vinir á Facebook