Nýlega skrifaði ég um hið ágæta Crémant de Limoux Brut frá Gérard Bertrand sem ég var nokkuð hrifinn af. Nú röðin komið að öðru freyðivíni frá sömu slóðum, nánar tiltekið rósavíninu í sömu línu frá Gérard Bertrand. Ég fór lauslega yfir Limoux og mismunandi freyðivínsaðferðir sem þar er beitt í pistlinum sem vísað er í hér að ofan, og því óþarf að þylja það allt upp aftur – sjá nánar hér.
Vínið er gert úr þrúgunum Chardonnay, Chenin blanc og Pinot noir. Vínið var látið liggja í 8 mánuði á eikartunnum áður en því var tappað á flöskur og seinni gerjunin sett af stað.
Gérard Bertrand An 825 Crémant de Limoux Brut Rosé 2019 er föl-laxableikt á lit, með fínlegum búbblum. Í nefinu finnur maður jarðarber, sítrusávexti og smá gerlykt. Í munni er miðlungsfylling, miðlungs sýra og fínleg freyðing. Jarðarber, hindber og sítrus í ágætu eftirbragðinu. 88 stig. Ljómandi gott freyðivín þó það nái ekki alveg sömu gæðum og systurvínið. Góð kaup engu að síður (3.199 kr). Gott eitt og sér en fer líka vel með sterkkrydduðum mat, fiskréttum ýmsum (t.d. með reyktum laxi) og með pinnamat. Sýnishorn frá innflytjanda.
Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (aðeins 14 umsagnir þegar þetta er skrifað).