Vínklúbburinn hélt síðasta skipulagða fund liðins vetrar í síðustu viku. Ég hafði ánægjuna af að vera gestgjafi kvöldsins og var búinn að velta verkefninu fyrir mér í nokkurn tíma. Það er jú áskorun að finna ný (eða gömul) og spennandi vín fyrir klúbbinn, enda mörg vín verið prófuð í bráðum 30 ára sögu klúbbsins.
Fyrsta vín kvöldsins var (samkvæmt til þess að gera nýlegri hefð) hvítvín. Vínið var mjög ljóst, með fölgulri áferð. Í nefinu voru sítrusávextir, sólberjalauf, græn epli, peru og hnetur. Góð sýra og gott jafnvægi í munni. Sítrus, epli og plómur(!) í góðu eftirbragðinu sem lifði þokkalega lengi, og það vottaði fyrir smá kolsýru. Vínið var Markus Molitor Alte Reben Riesling 2018 frá Moseldalnum í Þýskalandi. Vínið vakti almenna ánægju meðal félaganna og fékk 90 stig í einkunn. Vínið kostar 3.990 kr í vínbúðnum og nokkuð góð kaup að mínu mati. Vínið fær 92 stig hjá Robert Parker og 4.0 hjá notendum Vivino (336 umsagnir).
Næst bauð ég upp á rósavín, sem eru því miður frekar sjaldséð á Vínklúbbsfundum. Vínið var fölbleikt á lit, unglegt. Í nefinu fannst áberandi eplalykt og smá krydd. Í munni var góð sýra en vínið þótti óvenju kryddað og næstum aggressíft. Ef til vill leið það fyrir að koma á eftir hvítvíninu á undan því það sló ekki í gegn hjá klúbbmeðlimum. Umrætt vín var Chateau Romessan Bandole Rosé 2020 frá Domaines Ott. Vínið fæst ekki lengur í vínbúðnum en er þó flutt inn af AffBlitzz og kostar 5.490 kr. Nokkuð dýrt fyrir rósavín en Domaines Ott þykir með þeim betri í þessum flokki og þetta vín fær 93 stig hjá Robert Parker! Notendur Vivino gefa þessu víni 4.2 stjörnur (370 umsagnir). Vínið er að mestu úr Mourvédre, ásamt Grenache, Cinsault og Syrah.
Rósavín hafa verið nokkuð afskipt á fundum Vínklúbbsins í gegnum árin, enda framboðið í vínbúðunum oftast verið fátæklegra en í dag.
Þá var kominn tími til að skipta yfir í rauðvínin og fyrsta vínið sló menn nokkuð út af laginu. Vínið var ljós-kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt og fallegan bláma í röndinni. Í nefinu var Parmaskinka, reykt paprika, útihús, þroskaðar plómur, sólber krydd og svartur pipar. Í munni var góð sýra og miðlungsfylling. Píputóbak, vanilla, ristað brauð, fjárhús og tað í eftirbragðinu. Öðruvísi vín og þótti nokkuð skemmtilegt. Einkunnagjöfin var á bilinu 88-90 stig. Menn voru því hissa þegar í ljós kom að umrætt vín var Underwood Oregon Pinot Noir, sem er selt í dósum! 375 mL dós kostar 1.548 krónur og þykja því ágæt kaup. Þetta væri tilvalið að taka með í útileguna! Notendur Vivino eru þó ekki jafn hrifnir af þessu víni og gefa því 3,5 stjörnur. Ef til vill hafa umbúðirnar einhver áhrif á einkunnagjöfina því þegar búið var að umhella víninu og leyfa því að anda smá stund kom i ljós að það var alveg ágætt!
Eftir þetta fyrsta vín voru menn nokkuð varir um sig þegar næsta víni var hellt í glösin. Það var þó ástæðulaust. Vínið var fallega rautt með góðan þroska. Í nefinu voru jarðarber, hnetur, súkkulaði, piar, eik, og blómlegur hindberjailmur. Góð tannín, góð sýra og flottur ávöxtur í munni, mjög gott jafnvægi. Jarðarber, súkkulaði, toffí, hindber, þroskaðir ávextir og eik í silkimjúku og flottu eftirbragðinu. Vínið fékk 93-95 stig í einkunn. Hér var um að ræða Renato Ratti Barolo Marcenasco 2016. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,3 stjörnur (2.341 umsögn) og Robert Parker gefur því 94 stig.
Þriðja rauðvín kvöldins hitti beint í mark enda margir í klúbbnum hrifnir af Pinot Noir. Vínið var kirsuberjarautt á lit með ágætan þroska og góða dýpt. Í nefinu voru sólber, dökkt súkkulaði, sultuð ber, leður og þroskaðir bananar. Í munni var góð sýra, miðlung tannín og flottur ávöxtur. Eftirbragðið frábært með tóbaki, leðri, sólberjum, súkkulaði, banönum, eik og smávegis af brenndum sykri. Frábært vín sem fékk 95-97 stig hjá Vínklúbbnum. Umrætt vín var Joseph Drouhin Gevrey-Chambertin Premier Cru 2017. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,5 stjörnur (reyndar ekki nema 28 umsagnir). Þessi árgangur hefur ekki fengið einkunn hjá Robert Parker en 2018-árgangurinn fær 91-93 stig. Wine Spectator gefur 92 stig.
Síðasta vín kvöldsins var af allt öðru sauðahúsi en það sem hafði komið á undan. Vínið var dökkrautt á lit, aðeins skýjað og unglegt, með flotta tauma. Í nefið kom apótekaralakkrís, plómur, mynta, sultuð jarðarber og sólber, ásamt vanillu. Í munni voru mikil tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Kakó, kaffi, brownies, krydd og þroskuð ber í þéttu og miklu eftirbragðinu. 95 stig. Vínið reyndist vera Orin Swift Machete 2018. Vínið er gert úr Petit Sirah, Syrah og Grenache. Notendur Vivino gefa því 4,4 stjörnur (1.096 umsagnir) og Robert Parker gefur 93 stig. Wine Spectator gefur þessu víni 90 stig.
Þetta var skemmtilegur endir á starfi Vínklúbbsins í vetur og ég bíð spenntur eftir næsta vetri, en á næsta ári fagnar klúbburinn 30 ára afmæli og stefnan tekin á veglega afmælisferð.