Vínklúbburinn hittist fyrir skömmu og smakkaði nokkur vín. Fundirnir hafa af skiljanlegum ástæðum verið stopulir undanfarin 2 ár en sem betur fer er nú aftur hægt að funda reglulega. Í gegnum árin hafa rauðvín verið mest áberandi á fundum Vínklúbbsins en hvítvín hafa þó yfirleitt fengið að fljóta með að einhverju leiti. Líkt og ávallt voru öll vínin blindsmökkuð og gestgjafanum tókst að vanda mjög vel upp með valið á vínum kvöldsins.
Fyrsta vín kvöldins var fallega gult vín með góða dýpt og nokkra tauma. Í nefið barst ljúfur ilmur af hunangi, púðursykri, apríkósum og ostum. Í munni var vínið sætt og með góða fyllingu. Apríkósur, sætar perur (perubrjóstsykur) og marsipan voru ráðandi í eftirbragðinu. Auðvelt var að átta sig á að um sætvín væri að ræða en skiptar skoðanir um upprunann – Tokaj eða Sauternes? Menn urðu þó ásáttir um að gefa víninu 92 stig og voru almennt hrifnir af því. Vínið reyndist vera Tokaj, nánar tiltekið Disznókó Tokaj Aszú 5 Puttonyos 2012. 5590 kr.
Ungverjaland, einkum Tokaj, á sér langa og merka vínsögu. Áður fyrr voru vínin eftirsótt á borðum kóngafólks og aðalsins, en á tímum kommúnista var öll áherslan lögð á magn en ekki gæði. Skiljanlega fengu ungversk vín á sig slæmt orðspor (svipað og Beaujolais Nouveau gerði við Beaujolais-vín). Eftir fall kommúnismans hefur ungversk víngerð heldur betur rétt úr kútnum og þaðan koma nú aftur vel gerð og góð vín.
Næsta víni var öllu erfiðara að átta sig á, og kannski truflaði röðin eitthvað, þ.e. að fá þurrt hvítvín á eftir sætu. Vínið var mjög ljóst með örlitla fölgræna slikju. Í nefinu var nokkuð lokaður en kryddaður ilmur af aspas, perum og sýrópi. Í munni var vínið aðeins beiskt en með talsverða sýru. Aspas nokkuð ráðandi í eftirbragðinu. Vínið vakti ekki hrifningu allra og ekki lentum við á réttu landi né þrúgu. Stigin urðu á endanum 86. Hér var nefnilega um að ræða sömu þrúgu og í fyrsta víninu, þ.e. Furmint. Vínið kom frá sama landi og sama framleiðanda og fyrsta vínið – Disznókó Tokaj Dry Furmint 2020. Vínið kostar 2.899 krónur í vínbúðunum. Ég fjallaði um þetta vín fyrir nokkrum árum – nánar tiltekið 2015-árganginn og gaf honum 88. Líklega hefur það haft sitt að segja um einkunn kvöldsins að Furmint hefur ekki borist í glös Vínklúbbsins í langan tíma (ef þá nokkurn tíma). Úrvalið af Furmint í vínbúðunum er heldur ekki upp á marga fiska, því aðeins er hægt að kaupa þessi tvö vín sem hér voru smökkuð.
Þá var komið að rauðvínum kvöldsins og meðlimir vínklúbbsins komnir á heimavöll. Fyrsta rauðvínið var vel dökkt með góða dýpt og góðan þroska, auk fallegra tauma. Í nefið barst hvítur pipar, plómur, vanilla, eik og smá bananar. Í munni voru mjúk tannín, góð sýra og flott jafnvægi. Dökkt súkkulaði og bananar mest áberandi í þéttu og góðu eftirbragðinu. Ritari klúbbins negldi þetta vín nánast upp á framleiðanda – rétt þrúga, land, hérað og árgangur! Vínið fékk 91 stig. Hér var um að ræða Peter Lehmann Barossa Cabernet Sauvignon Mentor 2013 frá Ástralíu. Vínið kostar 5.399 krónur í vínbúðunum. Robert Parker gefur því 92 stig og meðaleinkunn gagnrýnenda á Wine-Searcher eru 92 stig.
Annað rauðvín kvöldsins var einnig fallega rautt með mikla dýpt, góðan þroska og fallega tauma. Í nefið kom fyrst kaffi og blýantur, ásamt súkkulaði og franskri eik. Þéttur og góður ilmur. Í munni voru góð tannín, fín sýra og góður ávöxtur. Gott jafnvægi. Súkkulaði og leður áberandi í góðu eftirbragðinu. Klúbbmeðlimir gáfu þessu víni 92 stig og voru nokkuð hrifnir. Hér var á ferðinni sama þrúga og áður en frá annarri heimsálfu. Vínið reyndist vera Catena Alta Cabernet Sauvignon Mendoza 2018. Vínið er að mestu úr Cabernet Sauvignon en í því er líka yfirleitt örlítið af Cabernet Franc (7% í þessum árgangi). Robert Parker gefur því 92 stig og meðaleinkunnin á Wine-Searcher er einnig 92 stig. Vínið kostar 5.990 kr í vínbúðunum.
Þriðja rauðvínið var nokkuð ljósara en hin tvö, en með góða dýpt og góðan þroska. Í nefinu fundu menn eik, þétta berjasultu, lakkrís, vanillu og appelsínubörk. Í munni voru þétt tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Vínið var í yngri kantinum, en með góðan keim af sólberjum, tóbaki og leðri í góðu eftirbragðinu. 92-93 stig. Líkt og í hinum rauðvínunum var cabernet sauvignon ráðandi í víninu, enda frá Margaux í Frakklandi – Chateau d’Arsac Margaux 2016. Robert Parker gefur því (89-91) stig, þ.e. bráðabirgðaeinkunn við smakk beint úr tunni (lokaafurðin ekki verið dæmd þar). Vínið kostar 5.848 krónur í vínbúðinni og er ágætis kaup, en líklega hefur það gott af nokkrum árum í geymslunni til að ná toppnum.
Lokavín kvöldsins reyndist einnig vera úr cabernet sauvignon og við hæfi að það kæmi frá fjórðu heimsálfu kvöldsins – N-Ameríku. Vínið var dökkt og þétt, með góða dýpt og frekar unglegt. Fallegir taumar í glasinu. Í nefinu fannst vanilla, leður, kirsuber, sólber, krydd og eik. Í munni voru þétt tannín, góð sýra og gott jafnvægi. Sólber, tóbak, vanilla, súkkulaði og eik í þéttu og góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel. Stigagjöfin er örlítið á huldu en mig minnir að lokatalan hafi verið um 92-93 stig og vínið vakti almenna lukku. Þegar hér var komið við sögu var ljóst hvert rauðvínsþema kvöldsins var og lokavínið sýndi öll merki þess að koma frá N-Ameríku, nánar til tekið Kaliforníu. Vínið reyndist vera Stag‘s Leap Cabernet Sauvignon Artemis 2018. Ljómandi gott vín sem er auðvitað að mestu úr Cabernet Sauvignon (94%) en í því er einnig að finna örlítið Merlot (5%) og Petit Verdot (1%). Það rífur aðeins í veskið – kostar 11.990 kr.