Concha y Toro Marques de Casa Concha Etiqueta Negra Puente Alto 2018

Fyrir 2 árum skrifaði ég um flöskuna með svarta miðanum – Etiqueta Negra – frá Concha y Toro og varð svo hrifinn að ég valdið það vín ársins 2020 á Vínsíðunni. Þetta vín er eiginlega litli bróðir Don Melchor frá Concha y Toro, sem hefur um árabil verið eitt besta vín Chile. Don Melchor hefur verið til í vínbúðunum í mörg ár en það hefur hins vegar ekki komið nýr árgangur í vínbúðirnar síðan ég veit ekki hvenær. Mér sýnist það nú vera horfið úr vínbúðunum og því óvíst hvenær það kemur aftur.

Þeir sem sakna Don Melchor geta gert margt vitlausara en að kaupa Etiqueta Negra í staðinn. Vínið er gert í nokkuð klassískum Bordeaux-stíl – blanda af Cabernet Sauvignon (73%), Cabernet Franc (17%) og Petit Verdot (10%). Alls voru framleiddar rúmlega 70.000 flöskur af þessu víni.

Concha y Toro Marques de Casa Concha Etiqueta Negra Puente Alto 2018 er dökk-kirsuberjarautt á lit, unglegt með ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður vanillu, sólber, brómber, eik, leður og smá steinefni. Í munni eru ríflega miðlungstannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Sólber, eik, tóbak og örlítið kakó í eftirbragðinu. Ljómandi gott vín sem fer vel með góðri steik – nauti, lambi eða villibráð. 91 stig. Góð kaup (4.199 kr). Nær ekki alveg sömu hæðum og 2017-árgangurinn en samt ljómandi gott.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (1123 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur því 90 stig og Robert Parker gefur því 93 stig. Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur því 4,5 stjörnur og það gerir einnig Steingrímur í Vinoteki.

Concha y Toro Marques de Casa Concha Etiqueta Negra Puente Alto 2018
Góð kaup
Concha y Toro Marques de Casa Concha Etiqueta Negra Puente Alto 2018 er ljómandi gott vín sem fer vel með góðum steikum.
4.5
91 stig

Vinir á Facebook