Fyrir nokkrum árum, nánar til tekið árið 2017, komu vín frá Luis Cañas í vínbúðirnar og það er óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið góðar, enda full ástæða til. Reservan sló í gegn jafnt hjá neytendum sem okkur vínskríbentum og virðist hafa tryggt sig í sessi í vínbúðunum. Þetta er nútímalegt Reserva sem neytendum líkar við – ávaxtaríkt og tilbúið til neyslu, en hins vegar er það ekki ætlar til langrar geymslu.
Ég hef áður fjallað um 2011-árganginn sem mér fannst frábær, og svo 2012-árganginn sem náði ekki sömu hæðum. Það er full ástæða til að benda líka á tvö önnur vín frá Luis Cañas sem eru fáanleg í vínbúðunum – Reserva Seleccion de la Familia og Gran Reserva. Því miður virðist Crianzan vera farin úr sölu, sem er mikil synd.
Vínhús Luis Canas er staðsett í þeim hluta Rioja-héraðs sem kallas Alavesa, sem er hæsta vínræktarhéraðið í Rioja. Samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda hefur fjölskyldan stundað vínrækt í meira en 100 ár, en fjölskyldan stofnaði þó ekki eigið vínhús fyrr en árið 1970. Vínekrur fjölskyldunnar ná nú yfir meira en 400 hektara lands og þar er fylgt s.k. rational viticulture-stefnu – ekki beint lífræn ræktun ef ég skil þetta rétt en öll notkun á skordýraeitri og tilbúnum áburði er bönnuð.
Vín dagsins
Vín dagsins er fyrrnefnd Reserva sem hefur vakið svo mikla hrifningu hérlendis. Vínið er að mestu gert út Tempranillo (95%) ásamt örlitlu af Graciano (5%). Þrúgurnar koma af 40 ára gömlum vínvið og eru því kröftugar og góðar (eldri vínviður gefur betri þrúgur). Að lokinni gerjun er vínið sett í 2 ára gamlar eikartunnur (60% úr franskri eik, 40% úr amerískri eik) þar sem það fær að liggja í 18 mánuði eins og Reserva þarf að gera.
Luis Cañas Rioja Reserva 2015 er kirsuberjarautt á lit, með ágæta dýpt og byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður vanillu, plómur, leður, kirsuber, tóbak og balsam-tóna. Í munnu eru ágæt tannín, ríflega miðlungs sýra og góð fylling. Súkkulaði, vanilla og eik ráðandi í góðu eftirbragðinu. 90 stig. Góð kaup (3.690). Ljómandi gott vín sem fer vel með lambi, nauti, kálfakjöti og jafnvel svínasteik. Ræður líka vel við osta og kryddpylsur. Nýtur sín vel næstu 3-4 árin en varla mikið lengur en það.
Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (874 umsagnir þegar þetta er skrifað).