Í sögulegu samhengi á Amarone ekkert sérstaklega langa sögu. Líkt og svo margar merkar uppgötvanir í mannkynssögunni þá varð Amarone til fyrir mistök. Vín sem kallast Recioto hafa lengi verið gerð í Valpolicella á ítalíu. Recioto eru búin til úr þurrkuðum vínberjum á svipaðan hátt og Amarone eru gerð. Árið 1936 uppgötvaði Adelino Lucchese, sem þá var í forsvari fyrir félagsskap sem nefnist Cantina Sociale Valpolicella, að ein tunna með Recioto hafði gleymst í vínkjallara hans. Hann þóttist viss um að vínið væri ónýtt en ákvað þó að smakka vínið. Hann á þá að hafa sagt: „þetta er ekki Amaro (bitter), þetta er Amarone (stór bitter)“ og nafnið festist við vínið.
Amarone var svo formlega búið til í fyrsta sinn árið 1938, en það var fyrst markaðssett sem slíkt árið 1953 og sló strax í gegn. Fyrstu reglurnar um Amarone voru settar árið 1968 og það var skilgreint sem DOC (Denominazione di Origine Controllata) árið 1990. Árið 2009 var Amarone svo hækkað upp í DOCG (Denominazione di Origine Controllata e Garantita) sem er efsta þrepið í gæðaflokkun ítalskrar víngerðar.
Eins og áður segir eru Amarone búin til með gerjun þurrkaðra vínberja. Slík vínber innihalda mikinn ávaxtasykur og þar sem vínið er látið gerjast þar til það verður þurrt (ekki sætt) er áfengisinnihaldið oftast í hærri kantinum. Lágmarkið er 14% en er oft 15,5% eða jafnvel hærra. Amarone þarf að geyma í a.m.k. 2 ár (tunnur, tankar, amfórur – engar kröfur eru gerðar um geymsluaðferðina) en Riserva þarf að geyma í minnst 4 ár. Vínin eru yfirleitt bragðmikil, með rauðum berjum, sveskjum, rúsinum, kanil, súkkulaði og tóbaki í bæði lykt og bragði.
Vín dagsins
Vín dagsins er framleitt undir merkjum Castelmondo, sem er í eigu sænska fyrirtækisins The Beverage Group. Vín Castelmondo eru framleidd sérstaklega fyrir norrænan markað og yfirleitt ekki að finna utan Norðurlanda. Vínið er gert úr þrúgunum Corvina, Rondinella og Molinara, og að lokinni gerjun fékk það að hvíla í 2 ár í stórum eikartunnum. Þetta er annar árgangurinn sem framleiddur er af þessu víni.
Castelmondo Amarone della Valpolicella 2016 er múrsteinsrautt á lit, djúpt með byrjandi þroska í kantinum. Í nefinu er nokkuð klassískur Amarone-ilmur af rúsínum, kirsuberjum, negull, kakó og sveskjum. Í munni eru miðlungstannin, rífleg sýra og miðlungs ávöxtur. Rúsínur, sveskjur, plómur og smá kakó í ágætu eftirbragðinu. 89 stig. Fer ágætlega með nauti, lambi, villibráð og ostum. Kemur aðeins við budduna eins og flest Amarone (4.398 kr) en er engu að síður með ódýrari Amarone í vínbúðunum.
Sýnishorn frá innflytjanda.
Notendur Vivino gefa þessu víni 3,8 stjörnur (81 umsögn þegar þetta er skrifað).