Í gær birti ég yfirlitsgrein yfir héraðið Rhône í Frakklandi og það er því vel við hæfi að vín dagsins komi frá Rhône. Vínið kemur frá vínhúsi E. Guigal sem er okkur íslendingum vel kunnugt. Guigal er með vínekrur víða í Rónardalnum og vín dagsins kemur frá vínekrum sem liggja við Saint-Joseph. Saint-Joseph er langt og mjótt svæði á hægri bakka árinnar Rhône.
Jarðvegurinn er grýttur og granít er ráðandi í bröttum hlíðum Saint-Joseph. Rauðvínin bera þess oft merki og geta verið með steinefnakeim. Þau eru yfirleitt nokkuð kröftug og krydduð og almennt eru góð kaup í þessum vínum.
Vín dagsins
Vín dagsins er, líkt og öll rauðvín frá Saint-Joseph, gert úr þrúgunni Syrah. Þó svo að víngerðarmönnum sé heimilt að nota hvítu þrúgurnar Roussanne og Marsanne í rauðvínin (hámark 10%) þá er það ekki gert í þessu tilviki. Vínið hefur fengið að liggja í 30 mánuði á nýjum eikartunnum (frönsk eik, nema hvað). Vínviðurinn mun vera 20-80 ára gamall, en þegar vínviðurinn eldist minnka oft afköstin en þrúgurnar verða hins vegar yfirleitt betri.
E. Guigal Saint-Joseph Vignes de L’Hospice 2016 er með djúpan fjólurauðan lit, unglegt að sjá. Í nefinu finnur maður kirsuber, plómur, leður, kryddjurtir og pipar. Í munni eru rífleg tannín, miðlungs sýra, góður skrokkur og flottur ávöxtur. Eik, kirsuber, kryddjurtir og steinefni í þéttu og aðeins hrjúfu eftirbragðinu sem heldur sér vel. 94 stig. Frábært vín en tekur aðeins í budduna (kostar nú 10.998 krónur). Smellpassaði við nautalundina en er eflaust frábært með íslenskri villibráð og alvöru steikum en einnig með þéttum ostum.
Robert Parker gefur þessu víni 95 stig og það gerir Wine Spectator einnig. Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur víninu 5 stjörnur. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,3 stjörnur (242 umsagnir þegar þetta er skrifað).