Rhône

Áin Rhône á upptök sín í svissnesku ölpunum, þaðan sem hún rennur inn í Genfarvatn nálægt bænum Montreux. Hún rennur svo áfram úr Genfarvatni í gegnum borgina Genf, í gegnum Júrafjöll áleiðis í átt að frönsku borginni Lyon. Í Lyon sameinast hún ánni Saône og heldur svo áfram leið sinni í gegnum Rónardalinn og rennur að lokum út í Miðjarðarhaf á milli borganna Montpellier og Marseille.

Rhône

Vínræktarsvæðinu Rhône er almennt skipt upp í þrjú meginsvæði – norður-Rhône, suður-Rhône og Les Côtes du Rhône, sem nær yfir bæði norður og suðurhlutana. þ.e. þau vínhéruð sem ekki hafa sérstaka skilgreiningu. Stærstur hluti vín sem flokkast sem Côtes du Rhône eru framleidd í suðurhlutanum. Rónardalurinn er næst-stærsta vínræktarhérað Frakklands (framleiðslan var um 280 milljónir lítra árið 2018). Um helmingur framleiðslunnar fellur undir skilgreininguna Côtes du Rhône AOC.

Veðurfræðilega eru norður- og suður-Rhône ólík. Í norðurhlutanum er meginlandsloftslag (kaldur vetur en hlý sumur) en í suðurhlutanum er miðjarðarhafsloftslag (mildur vetur og heit sumur)

Vínsagan

Talið er vínrækt í Rónardal hafi byrjað um 600 árum fyrir Krist. Líklega voru það Grikkir, sem flúðu þangað undan Cyrus I, sem hófu vínrækt á svæðinu. Ólíkt flestum vínhéruðum Frakklands var vínrækt sem sagt til staðar þegar Rómverjar mættu á svæðið. Þegar Rómverjar yfirgáfu Frakkland minnkaði áhugi á vínum héraðsins og litlar sögur fara af vínrækt í Rónardal fyrr en Páfinn flutti til Avignon árið 1309. Á árunum 1309-1376 voru sjö franskir Páfar sem stjórnuðu kaþólsku kirkjunni frá Avignon. Á þessum tíma tóku þeir ástfóstri við vínum héraðsins, einkum þau vín sem komu frá litlu héraði rétt fyrir norðan Avignon. Jóhannes páfi XXII ákvað að byggja sumarhús á þessu svæði. Húsið hlaut nafnið „nýji kastali páfa“ eða Chateauneuf-du-Pape og þorpið í kring hlaut í kjölfarið sama nafn. Vínin frá þessu svæði voru í fyrstu kölluð „Vins du Pape“ en voru síðar kennd við þorpið.

Kaþólska kirkjan sleppti ekki alveg yfirráðum á svæðinu þegar hún flutti aftur til Rómar. Á 17. öld fóru vín frá vínekrum Vikariatsins (kirkjusóknar) í Uzès á hægri bakka Rhône að vekja athygli fyrir gæði. Vínbændur í sókninni fóru að kenna vín sín við „Coste du Rhône“ og um 1650 voru settar reglur til að tryggja gæði og uppruna vínanna. Árið 1737 fyrirskipaði Lúðvík XV frakkakonungur að allar víntunnur frá Coste du Rhône skyldu merktar með „CDR“ til að reyna að koma í veg fyrir vörusvik og svindl. Vínbændur í nágrenni Vikariatsins héldu þó áfram að kenna vín sín við Coste du Rhône og komust upp með það. Á miðri 19. öld varð Coste du Rhône að Les Còtes du Rhône og vínekrur á vinstri bakka Rhône féllu einnig undir þessa skilgreiningu.

Rótarlúsin Phylloxera olli sömu eyðileggingu á vínekrum Rónardals og hún gerði annars staðar í Evrópu. Áður en rótarlúsin kom til Rónardals var Mourvèdre um þriðjungur alls vínviðar í Suður-Rhône. Það gekk hins vegar illa að finna heppilegar rætur fyrir Mourvèdre og í staðinn voru Syrah og Grenache gróðursett, því auðvelt var að græða þær á ræturnar. Þessar þrúgur urðu því ráðandi og í dag er Mourvèdre aðeins um 4% af rauðum vínviði innan Côtes du Rhône.

Rótarlúsin hafði þó ekki jafn mikil áhrif á landbúnað í Rónardal og frostaveturinn 1956 hafði. Þann vetur var 15 stiga frost í 3 vikur samfellt í Rónardalnum, á sama tíma og meginlandsvindurinn Mistral blés kröfuglega. Nær öll ávaxtatré og ólífutré í Rónardal drápust en vínviðurinn lifði þetta af. Margir bændur sem áður höfðu ræktar ólífur og ávexti fóru því í staðinn að rækta vínvið.

Norður-Rhône

Norður-Rhône byrjar um 30 km sunnan við Lyon og nær um 70 kílómetra í suður á milli bæjanna Vienne og Valence. Hér eru alls um 4.000 hektarar af vínekrum sem eru um 4% af vínekrum Rónardals. Vínekrurnar liggja í bröttum hlíðum meðfram ánni Rhône. Sumrin eru styttri en í suður-hlutanum og því eru hér ræktaðar þrúgur sem þroskast snemma – Syrah og Viognier. Vínrækt hófst fyrr í norður-Rhône en í suður-Rhône. Rómverjar byggðu stalla meðfram ánni Rhône, því niðri við ána er kaldara og ræktunin erfiðari.

Á hverju ári skolast hluti jarðvegarins niður með rigningu og vínbændur þurfa að bera hann aftur upp á vínekrurnar. Brekkurnar eru brattar og ekki hægt að nota vinnuvélar. Öll uppskera er því gerð með handafli og þrúgurnar bornar af vínekrunum í körfum.

Flest hvítvín frá norður-Rhône er þurr og eikaráhrifum er haldið í lágmarki. Örlítið er gert af freyðivínum í Saint-Péray. Þá er búið til örlítið af sætu (stundum eðalmygluðu) Viognier í Condrieu og sömuleiðis örlítið af s.k. Vin de Paille (strávín) í Hermitage (þrúgurnar eru þurrkaðar á strámottum í a.m.k. 45 daga áður en þær eru gerjaðar).

Rauðvínin eru þurr og oft með líflega sýru. Nánast öll eru gerð til að geta elst vel. Eikarnotkun við rauðvínsgerð er sömuleiðis stillt í hóf.

Þrúgur

Í norður-Rhône er Syrah eina rauða þrúgan. Hvítu þrúgurnar eru þrjár – Viognier, Marsanne og Roussanne. Viognier er bæði notuð í hvítvín og rauðvín. Hún er notuð til íblöndunar í rauðvín, því hún auðveldar víninu að halda lit sínum. Án Viognier er meiri hætta á að anthocyanin, sem gefa rauðvíninu lit, falli til botns og vínið missi lit. Marsanne og Roussanne er yfirleitt notaðar saman í hvítvín, en sums staðar eru þessar þrúgur einnig notuð til íblöndunar í rauðvín til að bæta ilm og mýkja tannín.

Vínsvæði

Í norður-Rhône eru átta skilgreind vínræktarsvæði (AOC) eða cru, sem öll eru einnig innan Côtes du Rhône vínræktarsvæðisins. Rauðvín eru um 80% af framleiðslunni og hvítvín um 20%. Engin rósavín eru gerð á vínræktarsvæðum norður-Rhône (séu þau gerð flokkast þau sem Côtes du Rhône).

Vínsvæði í norður Rhône og Diois
Vínsvæði í norður Rhône og Diois
  • Côte Rôtie AOC – nafnið þýðir ristuð/steikt hlíð og er dregið af því að vínekrurnar sem snúa í suð-austur fá mikið sólskin. Mikils metið hérað á hægri bakka Rhône sem framleiðir aðeins rauðvín úr Syra. Heimilt er að nota allt að 20% Vigonier í rauðvínin (oftast er það þó um 5% eða minna). Ef Viognier er notað þarf ræktun, uppskera og gerjun að eiga sér stað samhliða ræktun, uppskeru og gerjun Syrah.
  • Condrieu AOC – hérað á hægri bakka Rhône, með vínekrur sem snúa í austur. Héðan koma eingöngu hvítvín úr Viognier, langflest þurr. Eitthvað er framleitt af sætum hvítvínum, en á 18. öld og framan af þeirri 19. var stærstur hluti hvítvínanna sætur!
  • Château-Grillet AOC – lítið hérað (3,5 hektarar) innan suðurhluta Condrieu sem gerir aðeins þurr hvítvín í sama stíl og í Condrieu. Annað af aðeins tveimur héruðum utan Bourgogne þar sem allar vínekrurnar eru í eigu eins aðila (hitt er Coulée de Serrant í Loire-dalnum)
  • Saint-Joseph AOC – langt (60 km) og mjótt hérað á hægri bakka Rhône. Vínekrurnar snúa ekki allar í sömu átt og vínin geta því verið nokkuð mismunandi – sum kröftug, önnur mýkri og ávaxtaríkari. Um 85% framleiðslunnar eru rauðvín og um 15% hvítvín (Marsanne og Roussanne). Heimilt er að nota allt að 10% af hvítum þrúgum í rauðvínin.
  • Cornas AOC – nafnið mun vera úr keltnesku og þýðir sviðin jörð, enda nokkuð hlýtt hérað. Héðan koma bara rauðvín úr 100% Syrah.
  • Saint-Péray AOC – héðan koma bæði þurr og freyðandi hvítvín úr Marsanne og Roussanne. Freyðivínin eru gerð með kampavínsaðferðinni en framleiðslan er mjög lítil í dag.
  • Hermitage AOC – annað af aðeins tveimur héruðum á vinstri bakka Rhône, með einna elstu vínekrur Frakklands. Héðan koma langlíf og eftirsótt (og dýr) vín, bæði rauð og hvít, en einnig Vin de Paille. Um tveir þriðju hlutar framleiðslunnar eru rauðvín, þriðjungur hvít. Heimilt er að nota allt að 15% af hvítum þrúgum (Marsanne og Roussanne) í rauðvínin. Vínin frá Hermitage þurfa yfirleitt nokkur ár í geymslu til að njóta sín að fullu.
  • Crozes-Hermitage AOC – hitt héraðið á vinstri bakkanum og stærsta skilgreinda vínræktarsvæðið (AOC) í norður-Rhône. Héðan koma þurr rauðvín og hvítvín (Marsanne og Roussanne). Segja má að vínin séu léttari og fljótþroskaðri útgáfur af Hermitage og oft frábær kaup í þessum vínum.

Diois nefnist svæði sem landfræðilega er hluti af norður-Rhône, en ólíkt öðrum vínhéruðum í norður-Rhône telst það ekki liggja innan marka Côtes du Rhône. Svæðið er um 40 km suð-austur af Cornas og Saint-Péray og liggur nokkuð hærra, enda nálægt frönsku ölpunum. Vínekrurnar liggja í allt að 700m hæð yfir sjávarmáli og hér verða meiri hitasveiflur (bæði innan sólarhrings og milli árstíða) en annars staðar í Rhône. Hér eru fjögur skilgreind vínræktarsvæði og framleiðslan að mestu hvít freyðivín.

  • Clairette de Die AOC – langstærsta svæðið innan Diois með um 95% framleiðslunnar. Héðan koma hvít og rósa freyðivín úr þrúgunum Muscat à Petis Grains (Blanc og Rouge), Clairette, Clairette Rose og Gamay.
  • Crémand de Die AOC – héðan koma hvít freyðivín úr Clairette ásamt smávegis af Aligoté og Muscat à Petits Grains Blanc.
  • Coteaux de Die AOC – örlítið hérað (einn hektari) af Clairette sem notað er í hvítvín.
  • Châtillon-en-Diois AOC – héðan koma hvítvín, rósavín og freyðivín. Rauðvínin og rósavínin eru að mestu gerð úr Gamay (smá Syrah og Pinot Noir), en hvítvínin blönduð úr Chardonnay og Aligoté (engar reglur um hlutföll).

Suður-Rhône

Norður-Rhône lýkur þegar komið er að bænum Valence. Suður-Rhône tekur svo við þegar komið er að bænum Montélimar, um 50 kílómetrum sunnan við Valence. Suður-Rhône er þröngt og bratt líkt og norðurhlutinn, heldur er héraðið flatt og víðfeðmt. Ólíkt norðurhlutanum þá liggja vínekrur suður-Rhône ekki eingöngu meðfram ánni, heldur breiða þær úr sér allt að 80 kílómetra frá ánni Rhône. Í suðurhlutanum er Miðjarðarhafsloftslag, fleiri sólskinsstundir en í norðurhlutanum og minni úrkoma sem auk þess kemur að mestu leyti yfir vetrartímann. Jarðvegurinn er þurrari og harðari en í norðurhlutanum, og geri kröftuga úrkomu geta fylgt flóð þar sem jarðvegurinn nær ekki að taka við öllu vatnsmagninu á stuttum tíma. Þá er einnig hætt við þurrki og vatnsskorti á þeim vínekrum sem liggja hærra uppi. Hér er þó mun minni hætta á myglu þar sem loftið er miklu þurrara en í norður-Rhône.

Loftslagsáhrif eru farin að verða áþreifanleg í suður-Rhône. Meðalhiti hefur hækkað um 1,4 °C síðastliðna öld, úrkoma hefur minnkað og uppskeran hefst nú að meðaltali 2 vikum fyrr en hún gerði fyrir 25 árum. Vínin eru áfengisríkari en sýrumagnið hefur minnkað. Sumir vínbændur eru farnir að nota fleka eða tjöld til að útbúa skugga fyrir vínviðinn og hlífa honum þannig við hitanum.

Þrúgur

Vínin frá suður-Rhône er nær öll vín blöndur mismunandi þrúga og í suður-Rhône er miklu meiri fjölbreytni í þrúgum en í norðurhlutanum. Alls eru a.m.k. 34 tegundir ræktaðar í öllum Rónardalnum en 23 þrúgur er heimilt að nota í vín sem flokkast undir Côtes du Rhône.

  • Hvítvín – Viognier, Marsanne, Roussanne, Bourboulenc, Clairette og Grenache blanc. Grenache blanc er yfirleitt ráðandi þrúga í hvítum Côtes du Rhône og Chateauneuf-du-Pape. Þá er Muscat à Petits Grains Blanc notuð í vin doux naturel (VDN).
  • Rósavín – Clairette Rose, Grenache Gris og Piquepoul Gris eru eingöngu notaðar í rósavín, ásamt Cinsaut. Grenache og Cinsaut eru yfirleitt ráðandi í rósavínum frá suður-Rhône .
  • Rauðvín – Grenache, Syrah og Mourvèdre (GSM) eru ráðandi blanda í rauðvínum frá suður-Rhône. Grenache er aðalþrúgan og gefur af sér vín sem eru með hátt áfengishlutfall en miðlungs lit og sýru. Syrah gefur víninu meiri sýru og tannín, og Mourvèdre gefur alkóhól, lit, sýru og tannín. Aðrar þrúgur sem eru nokkuð útbreiddar í suður-Rhône eru Cinsaut, Carignan, Counoise og Marselan.

Flest hvítvín frá suður-Rhône eru gerjuð í hlutlausum ílátum (stál- eða steyptir tankar) og gerð til að vera drukkin innan 2-4 ára. Einstaka vín, einkum hvítvín frá Chateauneuf-du-Pape, komast í tæri við eik og geta geymst lengur. Rauðvín eru einnig oftast gerjuð í stórum, hlutlausum ílátum og almennt eru vín í suður-Rhône ekki lögð í litlar eikartunnur, að undanskildum betri vínum frá Chateauneuf-du-Pape.

Vínsvæði í suður-Rhône. Svæði innan Côtes du Rhône eru fjólublá, svæði utan CDR eru grá.
Vínsvæði í suður-Rhône. Svæði innan Côtes du Rhône eru fjólublá, svæði utan CDR eru grá.

Vínsvæði

Eins og áður segir er stærstur hluti Côtes du Rhône (CDR) í suðurhluta Rónardals. Í suðurhlutanum eru einnig 9 skilgreind vínræktarsvæði (AOC) eða cru. Þau ná yfir um 11.000 hektara og framleiðslan er um 85% rauðvín, 10% rósavín og 5% hvítvín.

AOC-pýramídinn í Rhône
AOC-pýramídinn í Rhône

Alls eru um 300 þorp í Rónardal þar sem vínrækt er stunduð, og 171 þeirra er staðsett innan Côtes du Rhône AOC. Af þeim þykja 95 hafa nægileg og stöðug gæði til að flokkast sem Côtes du Rhône Villages AOC. Innan Côtes du Rhône Villages AOC eru svo 22 þorp sem skara fram úr og geta bætt nafni þorpsins inn í Côtes du Rhône Villages AOC. Efst í pýramídanum eru svo 17 cru – 8 í norður-Rhône og 9 í suður-Rhône. Vínsvæðið kringum þorpið Laudun er talið líklegt til að verða næsta cru í suður-Rhône, en nú flokkast það sem Côtes du Rhône Laudun AOC.

  • Côtes du Rhône AOC – um 40% vínframleiðslu í Rónardalnum, um 30 þúsund hektarar. Öll rauðvín frá suðurhlutanum verða að innihalda a.m.k. 60% af aðalþrúgunum (Grenache, Syrah og Mourvedre) og skylt er að nota Grenache. Í norðurhlutanum verða 60% að vera ein af GSM-þrúgunum (en ekki skilgreint hvaða). Sömu reglur gilda um rósavín, og Cinsaut er yfirleitt notuð líka. Í hvítvín þarf meirihlutinn að vera einhver aðalþrúganna (Bourboulenc, Clairette, Grenache Blanc, Marsanne, Roussanne og Viognier) en hlutföll þeirra eru annars frjáls. Grenache Blanc er oftast ráðandi þrúga í hvítvínunum. Svipaðar reglur gilda Côtes du Rhône Villages AOC en almennt er þær þó aðeins strangari hvað varðar þrúgur og hlutföll. Frá nafngreindum Côtes du Rhône Villages AOC gilda strangari reglur um uppskeruhámark og áfengismagn. Þorpin sem mega setja nafn sitt við Côtes du Rhône AOC eru Chusclan, Gadagne, Laudun, Massif d’Uchaux, Nyons, Plan de Dieu, Puyméras, Roaix, Rochegude, Rousset-les-Vignes, Sablet, Saint-Andéol, Saint- Gervais, Saint-Maurice, Saint-Pantaléon-les- Vignes, Sainte-Cécile, Séguret, Signargues, Suze- la-Rousse, Vaison-la-Romaine,Valréas og Visan. Eins og áður segir er líklegt að Laudun muni verða sjálfstætt AOC innan skamms.
  • Vinsobres AOC – í norðausturhorni suður-Rhône, liggur aðeins hærra en flest hin cru-in í suðurhlutanum. Hér eru bara framleidd rauðvín sem eru að mestu úr Grenache en verða einnig að innihalda Syrah eða Mourvedre.
  • Rasteau AOC – rétt fyrir sunnan Vinsobres. Hér eru gerð þurr rauðvín úr GSM-blöndunni, ásamt styrktum rauðvínum, rósavínum og hvítvínum (sjá nánar í kaflanum um VDN). Lengst komu aðeins VDN-vín frá Rasteau, en frá 2010 hefur verið heimilt að gera þurr rauðvín
  • Cairanne AOC – hér eru gerð þurr rauðvín og hvítvín. Rauðvínin eru að mestu úr Grenache ásamt Syrah og/eða Mourvedre, en heimilt er að nota fleiri þrúgur. Hvítvínin eru að mestu úr Clairette ásamt Roussanne eða Grenache blanc, en hér er líka heimilt að nota fleiri þrúgur.
  • Gigondas AOC – hér eru einkum gerð þurr rauðvín (GSM-blandan) ásamt örlitlu af rósavíni.
  • Vacqueyras AOC – er við hliðina á Gigondas en hér er heitara og rauðvínin kröftugri. Í Vacqueyras eru gerð þurr rauðvín (GSM), rósavín (Grenache, Mourvedre og Cinsaut) og hvítvín (heimilt að nota flestar hvítu þrúgurnar).
  • Beaumes de Venise AOC – framleiðir þurr rauðvín sem verða að innihalda Grenache, og að minnst 60% vínsins verða að vera einhver af GSM-þrúgunum. Hér eru líka gerð VDN (sjá neðar).
  • Chateauneuf-du-Pape AOC – stærsta og þekktasta cru í suðurhluta Rónardals, syðsta héraðið á vinstri bakka Rhône. Hér eru gerð þurr rauðvín og hvítvín, og leyfilegt er að nota 13 mismunandi þrúgur í vínin (19 þrúgur ef litaafbrigði eru talin sér), sem gerir svæðið eitt frjálslyndasta AOC í Frakklandi. Ekki er skylda að nota einhverja tiltekna þrúgu og hlutföllin eru frjáls.
  • Lirac AOC – annað tveggja héraða sunnanmegin á hægri bakka Rhône. Hér eru gerð þurr rauðvín, hvítvín og rósavín. Svæðið er þurrt og hrjóstrugt, og vínviðurinn gefur því ekki jafn mikla uppskeru og annars staðar í Rhône, en fyrir vikið eru vínin kröftug og góð. Hvítvínin eru einkum úr Clairette, Bourboulenc og Grenache Blanc. Bæði rauðvín og rósavín eru að mestu úr Grenache, Cinsaut, Syrah og Mourvèdre.
  • Tavel AOC – syðsta cru-ið á hægri bakkanum og eina héraðið sem framleiðir aðeins rósavín. Heimilt er að nota 9 mismunandi þrúgur, en engin þeirra má vera meira en 60% af blöndunni og vínin verða að innihalda Grenache.

Vin doux naturels

Tvö héruð í suður-Rhône – Rasteau og Beaumes de Venise – gera einnig styrkt vín sem kallast vin doux naturels. Í Rasteau eru aðeins 6 hektarar af vínekrum sem fara í þessi vín. VDN frá Rasteau geta verið hvít, rauð eða rósa. Sætustigið verður að vera a.m.k. 4,5% (45 g/L) og áfengismagnið minnst 15%. Hvít VDN eru að mestu gerð úr Grenace-þrúgum (3 mismunandi litaafbrigði – Grenache blanc, Grenache gris og Grenace noir). Rauð VDN verða að vera minnst 75% rautt Grenache (noir) og Grenache-afbrigðin þrjú verða að vera minnst 90% blöndunnar.

Hvít og rauð VDN eru gerð annað hvort með „reductive“ aðferð eða „oxidative“ aðferð, þar sem vínin eru annað hvort útsett fyrir súrefni af ásetningi (oxidative) eða að súrefnið er forðast sérstaklega (reductive), líkt og almennt er gert við víngerð. Áhugasamir geta lesið sér til um þessar aðferðir hérna og hérna.

Hvít og rauð VDN frá Rasteau eru látin þroskast í minnst 3 mánuði og heimilt er að selja þau 1. mars árið eftir uppskeru. Um rósa VDN gilda engar reglur um þroskun, en þau þurfa að vera úr minnst 90% Grenache (allir litirnir þrír).

VDN-vínin frá Beaumes de Venise kallast Muscat de Beaumes-de-Venise og eru almennt sætari en VDN frá Rasteau (sætustig 10%). 83% eru rauð, 15% rósa og 2% eru hvít, og aðeins eru notuð rauð og hvít afbrigði af Muscat à Petits Grains við víngerðina.

Önnur vínsvæði í suður-Rhône

Vínræktarsvæði utan við Côtes du Rhône
Vínræktarsvæði utan við Côtes du Rhône,

Í suður-Rhône eru sjö skilgreind vínsvæði (AOC) sem falla utan við upptökusvæði Côtes du Rhône, ýmist vegna staðbundinna aðstæðna, stærðar eða þrúgunotkunar. Við víngerð í þessum héruðum er notast við sömu þrúgur og í Côtes du Rhône, auk þess sem leyft er að nota Vermentino og Macabeu. Vínstíll þessara héraða er almennt svipaður og saman standa þau fyrir um fjórðungi allrar vínframleiðslu í Rónardal. Þrjú þessara héraða eru keimlík og framleiða mikið magn af víni með áherslu á rauðvín og rósavín (fyrstu þrjú hér að neðan).

  • Ventoux AOC – staðsett í suðaustur horni suður-Rhône. Það er stærst þessara sjö svæða utan CDR og framleiðir hlutfallslega mikið af rósavínum (36%). Rúmlega helmingur framleiðslunnar eru þurr rauðvín og afgangurinn þurr hvítvín. Öll vín verða að vera gerð úr a.m.k. 2 þrúgum, og Carignan og Cinsaut eru ráðandi þrúgur í þessu héraði. Flestir vínbændur hér tilheyra samvinnufélögum (co-operative). Héraðið er nefnt eftir fjallinu Ventoux sem er þekktast fyrir það að keppendur í Tour de France þurfa að hjóla upp og niður brekkur fjallsins.
  • Luberon AOC – liggur fyrir sunnan Ventoux og að Coteaux d’Aix-en-Provence AOC í Provence í austri. Provence-áhrifin er líka nokkuð sterk, enda rúmlega helmingur framleiðslunnar rósavín (afgangurinn þurr rauðvín og hvítvín).
  • Costières de Nîmes AOC – liggur við hægri bakka Rhône og nær niður að Miðjarðarhafi. Þetta svæði er með heitustu héruðum Frakklands. Ólíkt öðrum héruðum í suður-Rhône þá er Syrah ráðandi þrúga. Rauðvín og rósavín eru um 90% framleiðslunnar (líka gerð þurr hvítvín).
  • Côtes du Vivarais AOC – liggur við hægri bakka Rhône, beint á móti Grignan-les-Adhémar AOC. Þetta hérað er aðeins kaldara en önnur héruð í suður-Rhône og hér rignir meira. Stærstur hluti vínanna eru rauðvín og rósavín en einnig eru gerð hvítvín. Rauðvín eru að mestu úr Grenache og Syrah, rósavínin að mestu úr Grenache og hvítvín að mestu úr Grenache Blanc.
  • Duché d’Uzès AOC – liggur norðvestur af borginni Nimes, hægra megin við Rhône. Sögufrægt hérað og líklega það sem átt er við í elstu heimildum um Côtes du Rhône. Mest er framleitt af hvítvínum úr Grenache Blanc og Viognier, og rauðvínum úr Grenache og Syrah.
  • Grignan-les-Adhémar AOC – liggur við vinstri bakka Rhône, á móti Côtes du Vivarais AOC. Mest er gert af rauðvínum úr Grenache og Syrah, en hér eru líka gerð þurr hvítvín og rósavín.
  • Clairette de Bellegarde AOC – þetta svæði liggur innan marka Costières de Nîmes AOC. Það nær aðeins yfir 8 hektara og hér eru eingöngu gerð hvítvín úr þrúgunni Clairette.

Staðan í vínbúðunum

Þegar þessi grein er skrifuð er hægt að nálgast 30 rauðvín frá Rhône, 7 hvítvín og eitt rósavín. Kassavínin eru 2 (bæði rauð) og sum þessara vína þarf að sérpanta.

Í stuttu máli

  • Landfræðilega skiptist Rhône í tvö ólík svæði – norður-Rhône og suður-Rhône.
  • Côtes du Rhône nær yfir allan Rónardal, að mestu yfir suðurhlutann.
  • Í norður-Rhône eru 7 skilgreind vínsvæði (AOC) eða cru og í suður-Rhône eru 8 cru. Þaðan koma þekktustu og bestu vínin.
  • Rauðvínin frá norður-Rhône eru öll úr Syrah. Rauðvín frá suður-Rhône eru flest úr GSM-blöndunni (Grenache, Syrah og Mourvedre) en hægt er að nota mun fleiri þrúgur í suðurhlutanum.
  • Hvítvínin eru flest blöndur mismunandi þrúga.
  • Rósavínin koma öll frá suður-Rhône og eru alltaf blöndur nokkurra þrúga.
  • Styrkt sætvín – vins doux naturels – eru gerð í suður-Rhône.

Vinir á Facebook