Þegar ég bjó í Svíþjóð varð ég áþreifanlega var við hvað sænska ríkisrekna áfengisverslunin – Systembolaget – er mikil maskína, en á annan hátt en ÁTVR. Systembolaget auglýsti reglulega eftir eða bauð út tiltekinn áfengisstíl, til dæmis ávaxtaríkt rauðvín með miðlungstanníni, eða kröftugt rauðvín með áberandi tanníni. Vínbirgjar og vínframleiðendur gátu sent inn tilboð og svo var valið vín til sölu í sænskum vínbúðum. Þannig var nokkuð algengt að sjá vín í hillum sænskra vínbúða sem ekki fengust annars staðar, því þau voru í raun gerð fyrir sænska markaðinn. Sérfræðingar Systembolaget vissu vel hvaða vín féllu best að sænskum bragðlaukum og þessi útboð voru til þess að mæta sænskri eftirspurn.
Nú má ekki misskilja mig svo að þessi vín hafi verið eitthvert sull – alls ekki! Oft á tíðum var hægt að gera ljómandi góð kaup í þessum vínum sem voru gerð fyrir sænskar vínbúðir og sænska neytendur. Vínframleiðslan öll fylgir líka reglum viðkomandi héraðs og gæðastaðla sem þar kunna að vera í gildi. Svo var einnig að færast í vöxt að sænskir „stjörnukokkar“ fóru að selja vín undir eigin merkjum. Sænskir og norrænir vínbirgjar fóru einnig sömu leið og sum vín fást einungis í ríkisreknum vínbúðum á Norðurlöndum.
Vín dagsins
Vín dagsins er einmitt gert fyrir norrænan markað. Castelmondo er merki sem er í eigu sænska fyrirtækisins The Beverage Group. Hér er á ferðinni dæmigert Ripasso, sem er búið til á þann hátt að þegar vínið hefur gerjast er bætt við þrúgum sem áður hafa verið notaðar við gerð Amarone eða Recioto, og vínið er svo látið gerjast aftur. Fyrir vikið vikið geta vínin verið aðeins sæt og með hærra áfengisinnhald en ella. Þannig fást vín sem eru mitt á milli hefðbundinna Valpolicella-rauðvína og Amarone. Vínin eru gerð úr þrúgunum Corvina, Rondinella og Molinara. Þetta er annar árgangur þessa víns (sá fyrsti auðvitað 2017).
Castelmondo Ripasso Valpolicella Superiore 2018 er kirsuberjarautt á lit, með byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður rúsínur, kirsuber, vanillu, dökkt súkkulaði og örlítinn lakkrískeim. Í munni slær vínið aðeins um sig með ágætum tannínum, ferskri sýru og nokkuð sultuðum ávexti. Plómur, kirsuber, vanilla og smá súkkulaði í ágætu eftirbragðinu. 88 stig. Ég er ekki mikið fyrir Ripasso en fyrir mér eru þetta engu að síður nokkuð góð kaup (2.699 kr). Fer vel með lambi og nauti, einkum ef það hefur haft viðkomu á grillinu. Sýnishorn frá innflytjanda.
Notendur Vivino gefa þessu víni 3,7 stjörnur (347 umsagnir þegar þetta er skrifað).