Languedoc-Roussillon

Languedoc-Roussillon í suður-Frakklandi er eitt stærsta vínræktarhérað heims – bæði að flatarmáli og í framleiðslu.  Vínekrur í Languedoc-Roussillon ná yfir 280.000 hektara, eða um þrefalt Reykjanes. Vínframleiðsla Languedoc-Roussillon er um þriðjungur af allri vínframleiðslu Frakklands, og er álíka mikil og öll vínframleiðsla Ástralíu. Yfirleitt sér maður ekki „Languedoc-Roussillon“ á miðum vínflaskna, heldur er nær alltaf vísað til viðeigandi AOC (Appellation d’Origine Contrôlée) eða vin de Pays.

Stjórnsýslulega kallast þetta svæði nú Occitania, en árið 2016 var það sameinað við Midi-Pyrénées. Vínin eru þó áfram kennd við Languedoc-Roussillon.

Vínsaga

Vínrækt í Languedoc-Roussillon hófst að sjálfsögðu með Rómverjum.  Lengi vel var Languedoc-Roussillon þekkt fyrir gæðavín, alveg þangað til Phylloxera rótarlúsin rústaði öllum vínekrum í Frakklandi og víðar. Í kjölfar Phylloxera-faraldursins  var gróðursettur nýr vínviður sem græddur var á amerískar rætur, líkt og annars staðar í Evrópu.  En þessi rót kunni ekki jafn vel við sig í kalksteininum í Languedoc-Roussillon og þreifst illa.  Í staðinn voru gróðursettur plöntur með lakari en afkastameiri þrúgum á borð við Aramon, Alicante Bouschet og Carignan.  Uppskeran varð ríkuleg en vínin þunn og ómerkileg. Til að bæta úr því var víni frá frönsku nýlendunni Alsír blandað saman við vínin til að styrkja þau.

Þegar Alsír hlaut sjálfstæði frá Frökkum árið 1962 lauk þessari íblöndun alsírskra vína.  Nokkrum árum síðar fór vínneysla í Frakklandi að breytast og færðist frá ódýrum vinum yfir í betri vín frá öðrum héruðum Frakklands. Áfram héldu þó víngerðarmenn í Languedoc-Roussillon að framleiða mikið magn af lélegum vinum og birgðirnar hlóðust upp.  Í byrjun 21. aldarinnar var áætlað að offramleiðsla léttvína í Evrópu næmi rúmlega 1.200 milljón lítrum (þetta var kallað evrópska vínhafið) sem voru eimaðir og notaðir við framleiðslu iðnaðaralkóhóls.  Vínbændur í Languedoc-Roussillon og fleiri héruðum hófu þá að rífa upp þennan afkastamikla vínvið og gróðursetja í staðinn vínvið á borð við Grenache, sem gefur af sér færri en betri þrúgur.  Meiri áhersla var lögð á gæði til að minnka þessa offramleiðslu og fá um leið hærra verð fyrir vínin. Smám saman eru vínbændur í Languedoc-Roussillon að losna við þetta orðspor um léleg vín og þaðan koma nú hvert gæðavínið á eftir öðru.

Vínhéruð

Languedoc-Roussillon er á margan hátt tvískipt svæði. Languedoc hefur ávallt verið franskt en Roussillon tilheyrði Spáni fram á 17. öld þegar Frakkar náðu þar yfirráðum. Í Roussillon eru enn mikil áhrif spænskrar og katalónskrar menningar.

Megnið af vinum Languedoc-Roussillon flokkast sem vin de Pays eða ”sveitavín” og þessi vín eru um 20% af öllum vínútflutningi Frakklands.  Languedoc AOC (appellation d’origine contrôlée) er yfirgripsmesta skilgreining á vinum frá Languedoc-Roussillon.  Innan þess eru svo um nokkur sérstaklega skilgreind svæði (þessi listi er ekki tæmandi):

  • AOC Banyuls (styrkt sætivín)- lítið hérað nálægt landamærum Spánar. Hér eru gerð styrkt sætvín sem eru að mestu úr Grenache.
  • AOC Cabardès (rauðvín, rósavín) – eina vínræktarsvæðið (AOC) í Frakklandi sem heimilar blöndun „Atlantshafsþrúga“ (Merlot, Cabernet Sauvignon, Cabernet Franc) og „Miðjarðarhafsþrúga“ (Syrah, Grenache). Í raun er vínræktendur skyldugir til að rækta þrúgur frá báðum þessum svæðum (50/50) og það er skylda að blanda þeim saman (a.m.k. 40% frá hvoru svæði fyrir sig)
  • AOC Clairette du Languedoc (hvítvín) – aðeins gerð hvítvín úr þrúgunni Clairette falla undir þessa skilgreiningu. Lítið hérað sem nær aðeins yfir um 100 hektara.
  • AOC Collioure (rauðvín, rósavín, hvítvín) – eiginlega sama svæði og Banyuls, og þrúgurnar geta komið af sömu vínekrum, en undir Collioure flokkast þurr rauðvín og hvítvín svæðisins. Lengst af voru bara gerð rauðvín og rósavín úr GSM-blöndunnni (ásamt Carignan og Cinsault) undir merkjum Collioure, en undanfarin 20 ár hefur einnig verið heimilt að gera hvítvín úr Grenache blanc og Grenache gris.
  • AOC Corbières (rauðvín, hvítvin, rósavín) – stærsta AOC innan Languedoc og nær yfir 13.500 hektara. Í öll vínin (rauð, hvít og rósa) er skylda að nota a.m.k. 2 þrúgur. Víngerðarmenn hafa úr mörgum þrúgum að velja en þó eru ákveðnar reglur um leyfileg hlutföll.
  • AOC Cotes du Roussillon (rauðvín, rósavín, hvítvín) – yfirgripsmikið svæði í suðurhluta héraðsins. Innan þess eru fjögur skilgreind þorpssvæði (villages) – Caramany, Latour de France, Lesquerde og Tautavel – og einnig sérstök AOC á borð við Banyuls og Collioure. Rauðvín Cotes de Roussillon eru að mestu leyti úr GSM-blöndunni og hvítvínin úr Grenache blanc og Macabeu.
  • AOC Faugeres (rauðvín, hvítvín, rósavín) – þekktast fyrir kröftug, þurr rauðvín úr GSM-blöndunni, Cinsault og Lledoner Pelut.
  • AOC La Clape (rauðvín, hvítvín) – þekkt fyrir kröftug rauðvín úr Grenache og Syrah, en einnig hvítvín sem verða skv. skilgreiningu að innihalda a.m.k. 40% af þrúgunni Bourboulenc.
  • AOC Limoux (freyðivín, hvítvín, rauðvín) – aðalþrúgan í Limoux heitir Mauzac, og hún gefur af sér vín með nokkuð áberandi eplakeim.  Hún er uppistaðan í freyðivínum sem kallast Blanquette de Limoux (a.m.k. 90% Mauzac), en frá Limoux koma líka þekktari freyðvín sem kallast Crémant de Limoux. Þau innihalda að mestu leyti Chardonnay og Chenin blanc og eru gerð með kampavínsaðferðinni – Méthode Traditionelle. Í Limoux eru einnig gerð freyðivín sem kallast Blanquette de Limoux Méthode Ancestrale þar sem forðast er að nota hvers kyns nútímaaðferðir (má t.d. ekki gerja vínin í stáltönkum) og átöppun á flöskur er gerð í mars þegar á nýju eða fallandi tungli.
  • AOC Minervois (rauðvín, hvítvín, rósavín) – vínin verða öll að vera blöndur a.m.k. tveggja þrúga.
  • AOC Picpoul de Pinet (hvítvín) – hér eru eingöngu framleidd hvítvín úr þrúgunni Picpoul.
  • AOC Pic Saint-Loup (rauðvín, rósavín) – héðan koma að mestu leyti rauðvín með kryddtónum úr Syrah, Grenache, Cinsault og Carignan, en einnig má gera rósavín úr þessum sömu þrúgum.
Vínhéruð í Languedoc-Roussillon.

Mörgum vínframleiðendum þykja reglur AOC-svæðanna íþyngjandi og ekki í takti við nútíma víngerð og markaðssetningu. Þeir hafa því margir yfirgefið regluverkið og framleiða vín sem þeir þurfa þá að flokka sem Vin de Pays eða jafnvel Vin de France (sem er lægsta þrepið í gæðakerfi franskrar víngerðar). Víngerðarmenn annarra landa hafa háð svipaða baráttu og má þar helst nefna víngerðarmenn í Toscana á Ítalíu, sem kollvörpuðu kerfinu með Super-Toscana vínum sem sökum gæða leiddu að lokum til breytinga á regluverkinu í Toscana. Frakkar eru ákaflega íhaldssamir þegar víngerð er annars vegar en eflaust munu reglurnar breytast eitthvað á næstu áratugum til að fylgja eftir þessari þróun.

Helstu þrúgur

Í Languedoc-Roussillon er heimilt að nota fjölmargar þrúgur, og liklega er ekkert vínhérað í Frakklandi með sama fjölbreytileika þegar þrúgur eru annars vegar.  Það er hins vegar mjög misjafnt milli einstakra vínræktarsvæða (AOC) hvaða þrúgur er heimilt að nota.  Sumar þeirra eru lítið þekktar utan Languedoc.

Sums staðar er heimilt að nota þrúgur sem kalla má alþjóðlegar, s.s. Merlot, Cabernet Sauvignon, Sauvignon Blanc og Chardonnay.  Víða má líka nota Rónar-þrúgurnar Mourvedre, Grenache, Syrah (GSM-blandan) og Viognier.

Chardonnay er aðalþrúgan í hvítvínum sem flokkast sem Vin de Pays d’Oc og í Cremant de Limoux.  Cinsault er mikið notuð í rosavin ásamt Lladoner Pelut, Piquepoul Noir, Terret Noir og Grenace.

Sæt og styrkt vín frá Languedoc-Roussillon eru gerð úr ýmsum afbrigðum Muscat – Muscat de Frontignan, Muscat de St.-Jean, Muscat Blanc à Petits Grains og Muscat de Alexandria.

Sveitavín og sætvín

Stærstur hluti vína frá Languedoc-Roussillon flokkar sem vin ordinarire eða borðvín.

Vin de Pays eða “sveitavín” er flokkun sem er skör ofar borðvínum, og það gilda ekki jafn strangar reglur um sveitavín og um vín sem falla undir AOC. Þannig er framleiðendum heimilt að blanda þrúgur eins og Cabernet Sauvignon, Merlot og Chardonnay við hefðbundnar Miðjarðarhafsþrúgur. Vínin í þessum flokki eru yfirleitt kennd við ákveðin svæði í Languedoc-Roussillon, s.s. Vin de Pays d’Oc, Vin de Pays d’Aude, Vin de Pays de l’Herault og Vin de Pays du Gard.

Vin Doux Naturels eru “náttúrulega sæt” vín sem hafa verið styrkt með brandý til að stöðva gerjunina áður en sykurinn úr þrúgunum hefur allur gerjast, þannig að vínin verða sætari. Flest sætvín frá Languedoc-Roussillon eru gerð úr hinum ýmsu Muscat-þrúgum.  Vínin frá Banyuls eru hins vegar gerð úr Grenache.  Þau eru yfirleitt um 16-17% að áfengismagni og sykurmagnið um 8-12%.  Í Banyuls eru vínin oft “bökuð” á ýmsa vegu. Þau geta verið geymd í tunnum sem eru látin standa úti í sólinni eða jafnvel höfð í stórum glerílátum svo að sólin geti skinið á vínin.  Við þetta dökkna vínin og fá oft nokkuð áberandi hnetukeim.

Staðan í vínbúðunum

Þegar þessi grein eru skrifuð er hægt að nálgast rúmlega 40 rauðvín frá Languedoc-Roussillon í hillum vínbúðanna (sum þarf reyndar að sérpanta). Þá er hægt að fá 16 hvítvín frá Languedoc-Roussillon og 5 rósavín. Því miður er ekkert Cremant de Limoux skráð í vörulista vínbúðanna.

Hér má sjá hvaða vín frá Languedoc-Roussillon fást í vínbúðunum.

Vinir á Facebook