Vínin frá Gérard Bertrand hafa lengi verið vinsæl hér á landi. Það sést kannski best á því að þegar þetta er skrifað er hægt að finna 27 mismunandi vín frá Gérard Bertrand í hillum vínbúðanna. Ég hef skrifað um mörg þeirra og það þarf lítið að fjölyrða frekar um þennan ágæta víngerðarmann. Það er alltaf ánægjuefni þegar það koma ný vín frá Gérard Bertrand í hillur vínbúðanna og nú eru tvö ný vín komin fyrir okkur að njóta.
Þessi nýju vín eru úr s.k. Héritage-línu Gérard Betrand. í þeirri vörulínu er skírskotun til sögu suður-Frakklands. Vínið sem hér um ræðir ber nafnið Cite de Carcassonne „An 1130“ og er nefnt eftir samnefndum bæ í Occitaníu. Á þessu svæði hefur verið byggð allt frá lokum steinaldar, og þarna lágu verslunarleiðir milli Atlantshafs og Miðjarðarhafs. Rómverjar áttuðu sig strax á mikilvægi þessarar hæðar og höfðu þar aðsetur allt þar til Rómaveldi leið undir lok. Fyrsta virkið umhverfis þorpið var byggt árið 1130. Bærinn er nú á heimsminjaskrá Unesco.
Vín dagsins
Vín dagsins er hreint Chardonnay og flokkast sem IGP Cite de Carcassonne.
Gérard Bertrand Héritage Cite de Carcassonne „An 1130“ Chardonnay 2020 er fölgult á lit, með angan af sítrónum, eplum, nektarínum og heslihnetum. Í munni er frískleg sýra, ágæt fyllling og þægilegt jafnvæi. Í eftirbragðinu eru sítrónur, nektarínu og gul epli. 87 stig. Góð kaup (2.499 kr). Fer vel með fiski og ljósu fuglakjöti eða sem fordrykkur. Sýnishorn frá innflytjanda.
Það eru of fáar umsagnir á Vivino til að vínið fái einkunn þar. Vínið hefur heldur ekki komið til umfjöllunar hjá Robert Parker eða Wine Spectator.