Í síðustu viku fjallaði ég aðeins um vínhús Altano í Douro-dal í Portúgal. Vínin frá þessu ágæta vínhúsi fengust á Íslandi fyrir nokkrum árum, og ég valdi eitt af vínum Altano sem vín ársins 2014. Þar fóru nefnilega saman gæði og frábært verð. Því miður hurfu þessu vín svo úr hillum vínbúðanna í nokkur ár. Nú eru aftur fáanleg vín frá Altano í vínbúðnum og full ástæða til að gleðjast yfir því.
Ég smakkaði vínið sem hér er fjallað um í fyrsta sinn árið 2018, en þá var 2014-árgangurinn. Mér fannst hann það góður að ég taldi hann upp á meðal bestu kaupa ársins 2018.
Vín dagsins
Vín dagsins er gert úr þrúgnum Touriga Nacional (90%) og Touriga Franca (10%). Að lokinni gerjun fékk vínið að liggja í um 10 mánuði á eikartunnum (bæði frönsk og amerísk eik).
Altano Douro Reserva 2018 er rúbínrautt á lit, unglegt með miðlungs dýpt. Í nefinu finnur maður fjólur, bláber, kirsuber, kryddjurtir og smá vanillu. Rífleg sýra, miðlungs tannín og ágætur ávöxtur. Kirsuber, bláber og kryddjurtir í ágætu eftirbragðinu. 88 stig. Ágæt kaup (2.999 kr). Fer vel með grilluðu kjöti hvers konar, einkum fuglakjöti, jafnvel lambi eða svíni. Gæti gengið með pinnamat og hörðum ostum.
Notendur Vivino gefa þessu víni 4.0 stjörnur (41 umsögn þegar þetta er skrifað).