Altano Douro Rewilding Edition 2019

Symington-fjölskyldan er líklega þekktust fyrir púrtvínin sín, en fjölskyldan á púrtvínshúsin Graham’s, Warre’s, Dow’s og Cockburn’s. Á síðustu áratugum hefur fjölskyldan líka haslað sér völl í annarri víngerð og á nú vínhúsin Quinta do Vesuvio, Quinta do Ataíde, Quinta da Fonte Souto, P+S og Altano.

Vínin frá Altano voru fáanleg á Íslandi fyrir nokkrum árum en hurfu svo því miður úr hillum vínbúðanna. Ég var mjög hrifinn af þessum vínum á sínum tíma og valdi m.a. vín frá þeim sem vín ársins 2014. Það er því sérstakt ánægjuefni að vínin frá Altano séu nú aftur fáanleg hér á landi.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Altano. Þetta vín er gert til styrktar náttúruverndarverkefnis í NA-Portúgal og ágóðinn af sölu vínsins rennur til verkefnisins.

Vínið er gert úr þrúgunum Touriga Franca, Tinta Roriz (Tempranillo) og Tinta Barroca, sem eru aðalþrúgurnar í Douro-dalnum.

Altano Douro Rewilding Edition 2019 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, plómur, vanillu, eik og kryddjurtir. Í munni eru miðlungstannín, rífleg sýra og fínn ávöxtur. Plómur, skógarber, timjan og bláber ráðandi í ágætu eftirbragðinu. 87 stig. Mjög góð kaup (2.199 kr). Fer vel með lambakjöti, fugli og hörðum ostum, eða bara eitt og sér.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,6 stjörnur (61 umsögn þegar þetta er skrifað).

Altano Douro Rewilding Edition 2019
Mjög góð kaup
Altano Douro Rewilding Edition 2019 fer vel með lambakjöti, fugli og hörðum ostum, eða bara eitt og sér.
4
87 stig

Vinir á Facebook