Ribera del Duero nefnist vínhérað sem er staðsett í Castillo y Leon í norðurhluta Spánar, um 130 km norður af Madríd. Héraðið er í efri hluta Duero-dalsins, sem samnefnd á rennur í gegnum. Áin rennur út í Atlantshafið, og meðfram henni eru fleiri vínhéruð – Arribes. Rueda, Tierra del Vino de Zamora, Arlanza og Toro á Spáni, og auðvitað Douro í Portúgal.
Tempranillo er langmikilvægasta þrúgan í Ribero del Duero, líkt og í flestum vínhéruðum Spánar og uppistaðan í rauðvínum héraðsins. Í Ribera del Duero kallast þrúgan Tinto Fino (líka kölluð Tinta del Pais – „blek landsins“). Einnig er heimilt að nota lítið magn af Cabernet Sauvignon, Garnacha, Merlot og Malbec. Rósavín héraðsins eru gerð úr Garnacha og hvítvínin úr Albillo.
Víngerð hefur líklega verið stunduð í þúsundir ára í Ribera del Duero, en víngerð eins og við þekkjum hana hefur líklega hafist á 12. öld e. Kr. með frönskum munkum frá Búrgúndí. Héraðið fékk þó ekki DO-skilgrieningu fyrr er árið 1982.
Þekktasta vínhús Ribera del Duero er án efa Vega Sicilia, og Unico frá Vega Sicilia er af mörgum talið besta rauðvín Spánar. Önnur áhugaverð (og góð) vínhús eru m.a. Protos, Emilio Moro, Alion og Tinto Pesquera (þetta er alls ekki tæmandi upptalning), en alls eru um 250 vínhús í Ribera del Duero.
Í vínbúðunum er hægt að finna 42 rauðvín frá Ribera del Duero (helmingur þeirra kostar meira en 5.000 kr). Til samanburðar eru 114 vín frá Rioja (16 sem kosta yfir 5.000 kr).
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá vínhúsi Valduero sem var stofnað árið 1984. Bodegas Valduero hefur frá upphafi lagt áherslu á hágæðavín. Vínviðirnir eru flestir áratuga gamlir og gefa ekki mikið af sér. Sum vínin frá Valduero eru aðeins gerð í góðum árgöngum. Gran Reservan þeirra er sérstakt að því leiti að þrúgurnar koma af sérvöldum plöntum og þær eru svo kramdar í höndunum þegar víngerðin hefst!
Vín dagsins kemur af vínekru sem er meira en 50 ára gömul. Hver planta gefur af sér þrúgur sem nægja aðeins í eina flösku, sem er með því allra minnsta sem þekkist. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja í 18 mánuði á eikartunnum og svo a.m.k. 1 ár á flösku áður en það fer í sölu.
Valduero Ribera del Duero Una Cepa I 2016 er kirsuberjarautt, með ágæta dýpt og byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður sólber, lavender, vanillu, leður og krydd. Í munni eru miðlungstannín, àgæt sýra og sæmilegur ávöxtur. Tóbak, leður, vanilla og sólber í kröftugu en fáguðu eftirbragðinu sem heldur sér vel og lengi. 93 stig. Góð kaup (5.222 kr). Passaði vel með ribeye og fer eflaust vel með stórum steikum og góðri villibráð.
Decanter gefur þessu víni 96 punkta. Notendur Vivino gefa víninu 4,4 stjörnur (1.050 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri í Víngarðinum gefur 4,5 stjörnur. Wine Spectator hefur ekki dæmt þennan árgang en 2015 fær 92 punkta og 2017 fær 88 punkta.