Senn er 24. starfsár Vínsíðunnar og venju samkvæmt verður aðeins litið um öxl. Árið 2021 var sérstakt ár, líkt og í fyrra. COVID hélt áfram að setja svip sinn á starfsemi Vínsíðunnar. Líkt og í fyrra falaðist ég lítið eftir sýnishornum frá birgum ÁTVR, heldur fjallaði ég aðallega um eigin kaup og það sem var til staðar í víngeymslum mínum og félaga minna. Vínklúbburinn hélt fáa fundi og hið sama er að segja um Smíðaklúbbinn (annar vínklúbbur sem ég er í). Ég reyndi þó að gera skil þeim fáu fundum sem voru haldnir (en á samt eftir að fá fundargerð síðasta Vínklúbbsfundar…).
Alls náði ég að smakka 166 vín og skrá hjá mér einhvers konar umsögn. Sumt rataði inn á Vínsíðuna, annað náði ekki lengra en umsagnarlaus stjörnugjöf á Vivino. Rauðvín voru líkt og áður í meirihluta þess sem smakkað var – alls smakkaði ég 119 rauðvín, 28 hvítvín, 17 freyðivín, 2 rósavín og 2 púrtvín. Alls gaf ég 26 vínum 5 stjörnur, 46 fengu 4,5 stjörnur, 71 fengu 4 stjörnur, 4 fengu 3,5 stjörnur og 4 fengu 3 stjörnur.
Bestu rauðvínin
Af þeim 25 vínum sem fengu 5 stjörnur hjá mér í ár var 21 rauðvín. Sjö þeirra eru ekki fáanleg hérlendis. Af hinum 14 ber helst að nefna eftirfarandi vín:
- Torre Muga 2016 (97 stig, 11.999 kr)
- Orin Swift Papillon 2018 (96 stig, 10.398 kr)
- Muga Prado Enea Gran Reserva 2014 (95 stig, 8.999 kr)
- Orin Swift Machete 2017 (94 stig, 7.799 kr)
- Carodorum Seleccion Especial Toro 2015 (95 stig, 5.091 kr)
- Viña Ardanza Rioja Reserva 2012 (94 stig, 4.850 kr)
- Bodegas La Horra Corimbo 2015 (93 stig, 4.199 kr)
Bestu hvítvínin
Það rataði engin 5-stjörnu umsögn um hvítvín inn á Vínsíðuna þetta árið, en samkvæmt mínum bókum gaf ég aðeins einu hvítvíni 5 stjörnur í ár – Chateau d’Yquem 1994, sem ég hafði reyndar fjallað um í tengslum við árshátíð Vínklúbbsins 2014. Það voru 6 hvítvín sem fengu 4,5 stjörnur hjá mér í ár og þar af voru 4 sem fengu umsögn á Vínsíðunni:
- Markus Molitor Trabener Würzgarten Alte Reben Riesling 2018 (93 stig, 5.290 kr)
- Château Doisy-Vedrines Sauternes (Grand Cru Classé) 2016 (93 stig, 4500 kr/375 ml)
- Markus Molitor Alte Reben Mosel Riesling 2018 (93 stig, 3.990 kr)
- Luigi Baudana Bianco Dragon 2019 (90 stig, 3.190 kr)
Bestu freyðivínin
Í ár fengu 3 freyðivín 5 stjörnur frá mér og 4 fengu 4,5 stjörnur (þar af 3 sem ekki fást í vínbúðunum). Þessi 6 vín eru öll frá Champagne en ég ætla líka að nefna 2 önnur freyðivín sem fengu 4 stjörnur frá mér:
- Billecart-Salmon Champagne Brut Rosé (94 stig, 9.690 kr)
- Billecart-Salmon Champagne Brut Reserve (92 stig, 6.999 kr)
- Laherte Freres Les Grandes Crayères Blanc de Blancs Millésime Extra Brut Champagne 2015 (94 stig, 7.000 kr)
- Bailly Lapierre Crémant de Bourgogne Réserve Brut N.V. (89 stig, 2.698 kr)
- Marques de la Concordia Cava Gran Reserva Brut Nature 2012 (89 stig, 4.964 kr)
Vín ársins 2021
Líkt og undanfarin ár finnst mér snúið að velja vín ársins. Við valið er auðvitað horft á bæði verð og gæði en svo þarf líka að vera eitthvað meira sem ræður úrslitum (þessi X-factor sem ég hef býsnast yfir hjá t.d. Wine Spectator). Þá er auðvitað lykilatriði að vínin fáist í vínbúðunum og helst í fleiri en einni búð. Þannig fannst mér 3 síðastnefndu rauðvínin hér að ofan koma sterklega til greina en þau fást aðeins á höfuðborgarsvæðinu og sum bara í Heiðrúnu. Þá fannst mér Markus Molitor Alte Reben Mosel Riesling 2018 vera ein bestu hvítvínskaupin í ár – eða væri það ef vínið væri komið í vínbúðirnar. Þá má líka nefna að það eru frábær kaup í Bailly Lapierre Crémant de Bourgogne Réserve Brut N.V. sem kostar ekki nema tæpa 2.700 krónur. Vínið sem varð fyrir valinu sem vín ársins fæst hins vegar um land allt, fékk 93 stig hjá mér og eftir á að hyggja hefði ég átt að gefa því 5 stjörnur. Vín ársins 2021 á Vínsíðunni kemur úr hinum frábæra 2016-árgangi í Rioja – CVNE Rioja Imperial Reserva 2016.
CVNE Rioja Imperial Reserva 2016 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, plómur, leður, tóbak, súkkulaði, vanillu og anís. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Nýtt leður, vanilla, kirsuber, súkkulaði og tóbak í þéttu og góðu eftirbragðinu. 93 stig – mjög góð kaup (4.499 kr). Steinliggur með íslenska lambinu, einkum ef það hefur lent á grillinu, en nýtur sín líka vel með spænskum pylsum, tapas og góðum ostum.
Ég þakka lesendum samfylgdina á árinu 2021 og óska ykkur velfarnaðar á nýju ári. Megið þið smakka sem flest frábær vín á árinu 2022¨!