Vínin frá Castilla Perelada hafa nú verið fáanleg í vínbúðunum í nokkur ár. Mér sýnist að ég hafi fyrst smakkað vínin þeirra árið 2016 og ég minnist þess ekki að þau hafi nokkurn tíma valdið mér vonbrigðum. Vínhús Perelada er staðsett í héraðinu Emporda, sem er nyrst í Katalóníu. Vínhús Perelada framleiðir nokkuð mörg vín, líklega á þriðja tug vína, og hægt er að nálgast 7 þeirra í vínbúðunum.
Vínið sem hér um ræðir er Crianza – ungt vín. Það er gert úr þrúgunum Samsó, Garnatxa, Cabernet Sauvignon, Merlot og Syrah. Samsó er annað nafn á þrúgunni Carinyena eða Carignan, en ekki má rugla Samsó við hina frönsku þrúgu Cinsault þó nöfin hljómi svipuð. Ástæða þess að þrúgan skal heita Samsó er til að forðast það að rugla víninu saman við svæðið Carinena í Aragón á Spáni.
Perelada 3 Finques Crianza 2017 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með miðlungs dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, plómur, bláber, vanillu og ögn af súkkulaði. Í munni eru þétt tannín, miðlungssýra og ágætur ávöxtur. Kirsuber, vanilla, súkkulaði og smá eik í krydduðu eftirbragðinu. 88 stig. Mjög góð kaup (2.223 kr). Fer vel með grilluðu nautakjöti, lambakjöti og léttari villibráð, en einnig með ostum og góðum pylsum.
Notendur Vivino gefa þessu víni 3,5 stjörnur (496 umsagnir þegar þetta er skrifað).