Eitt það besta sem ég veit eru sætvín frá Sauternes. Það er eitthvað við þennan sæta hunangs- og apríkósukeim sem fylgir vínum sem eru gerð úr Sauvignon Blanc og Semillon, sem hafa fengið á sig svokallaða eðalmyglu – botrytis cinerea – sem þurrkar þrúgurnar og hækkar þannig ávaxtasykurinn í þeim. Því miður er úrvalið lítið hér á landi og þessu vín eru yfirleitt í dýrari kantinum. Samkvæmt vef vínbúðanna fást í dag (29.12.21) 6 mismunandi Sauternes-vín í vínbúðunum sem kosta frá 2.829 kr upp í 42.589 kr fyrir hálfflösku (375 ml) af Chateau d’Yquem 2010. Mér finnst reyndar frábært að Chateau d’Yquem fáist hér á landi, því það er óumdeild drottning sætvínanna.
Það má þó ekki gleyma netverslun Sante, en þar fást tveir árgangar af Chateau Doisy-Vedrines – 2016 og 1975.
Château Doisy-Vedrines Sauternes Grand Cru Classé 2016 er gert úr þrúgunum Sémillon (80%), Sauvignon Blanc (15%) og Muscadelle (5%). Það er fölgullið í glasi, með þykka og fallega tauma. Í nefinu finur maður hunang, apríkósur, suðræna ávexti og smá engifer. Í munni er vínið þétt og sætt, með ljúffenga hunangstóna, ásamt smjörkenndum apríkósum, ananas, ástaraldinum og mangó, ásamt smá steinefnum og frískum sítrus. 93 stig. Góð kaup (4.500 kr fyrir 375 ml, 7.000 kr fyrir 750 ml). Ætti að njóta sín vel næsta áratuginn eða svo.
Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (282 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 93+ punkta.