Það er algengur siður að skála í freyðivíni við merkileg tilefni, og líklega hugsa flestir um kampavín þegar kemur að því að fagna og skála. Kampavín eru þó langt því frá einu frambærilegu freyðivínin frá Frakklandi. Freyðivín sem kallast Crémant eru framleidd í a.m.k. 8 vínræktarhéruðum Frakklands – frá Alsace í norðri til Limoux í suðri – auk þess sem Crémant eru einnig framleidd í Lúxembúrg.
Í Champagne er aðeins heimilt að nota þrúgurnar Chardonnay, Pinot Noir og Pinot Meunier. Þrúgurnar í Crémant geta verið mun fleiri og eru alls ekki þær sömu í öllum héruðunum. Hins vegar gildir í öllum héruðunum að þrúgurnar þarf að tína með höndunum, aðeins er heimilt að pressa 100 lítra af safa úr hverjum 150 kílóum af þrúgum, og vínið þarf að liggja í a.m.k. 9 mánuði sur lie (á gerinu). Víngerðin sjálf er annars nánast alveg eins og í Champagne
Þeim sem vilja vita meira um Crémant er bent á þessa ágætu samantekt á Wine Folly.
Áramótafreyðivínið ?
Ef þú ætlar ekki að fá þér kampavín um áramótin en langar engu að síður að skála í góðu freyðivíni þá er ágæt hugmynd að prófa Crémant frá Bailly Lapierre. Bailly Lapierre er staðsettur í Búrgúndí, en þar eru einkum notaðar þrúgurnar Chardonnay og Pinot Noir, en stundum eru einnig notaðar þrúgurnar Gamay, Pinot Blanc, Sacy, Pinot Gris, Aligoté og Melon de Bourgogne.
Bailly Lapierre Brut Réserve Crémant de Bourgogne er gert úr þrúgunum Chardonnay, Pinot Noir, Aligoté og Gamay. Það er strágult á lit og freyðir fínlega í glasi. Í nefinu finnur maður perur, sítrónur, epli, ger og greipaldin. Í munni eru fínlegar búbblur sem kitla góminn á þægilegan hátt. Sítrónur, epli, melónur og greipaldin í ágætu eftirbragðinu. 89 stig. Mjög góð kaup (2.698 kr). Fer vel með sushi, pinnamat, fuglakjöt og svo auðvitað til að skála með!
Þorri í Víngarðinum gefur þessu víni 4 stjörnur og notendur Vivino gefa því 3,9 stjörnur (2978 umsagnir þegar þetta er skrifað).