Marques de Murrieta Rioja Reserva 2016

Þegar ég fjallaði um 2015-árganginn af Marques de Murrieta Rioja Reserva nefndi ég að 2016-árgangsins væri beðið með eftirvæntingu. Þó að 2015 hafi verið mjög gott ár í Rioja þá var 2016 líklega enn betra og líklega besti árgangurinn síðan 2010. Árið 2010 var mjög gott hjá Marques de Murrieta sem kom greinilega í ljós í fyrra, þegar Marques de Murrieta Castillo Ygay Rioja Gran Reserva Especial 2010 var valið vín ársins hjá Wines Spectator.

Ólíkt flestum öðrum vínhúsum í Rioja þá gerir Marques de Murrieta ekkert Crianza-vín. Grunnvínið þeirra er Reserva og ársframleiðslan á þessu víni er rúmlega 1 milljón flöskur, sem er alveg ótrúlegt miðað við gæðin í þessu víni.

Vín dagsins

Vínið er gert úr þrúgunum Tempranillo, Mazuelo, Graciano og Garnacha. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja í 16 mánuði á tunnum úr amerískri eik.

Marques de Murrieta Rioja Reserva 2016 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu finnur maður sætan kirsuberjailm, vanillu, bláber, balsam, eik, leður og krydd. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og góður ávöxtur. Vanilla, súkkulaði og kirsuber ráða ferðinni í þéttu og góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel og lengi.. 93 stig. Frábær kaup (3.990 kr). Fer vel með flottum steikum, einkum grilluðu lambakjöti. Framleiðandinn stingur líka upp á að bera það fram með svínakjöti eða ofnsteiktum fiski og grilluðu grænmeti.

Robert Parker gefur þessu víni 93-94 stig og Wine Spectator gefur því 91 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (5219 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson gefur þessu víni 5 stjörnur.

Marques de Murrieta Rioja Reserva 2016
Frábær kaup!
Marques de Murrieta Rioja Reserva 2016 fer vel með flottum steikum, einkum grilluðu lambakjöti.
4.5
93 stig

Vinir á Facebook