CVNE Rioja Imperial Reserva 2016

Vínhús CUNE rekur sögu sína til ársins 1879, stofnað af bræðrunum Eusebio og Raimundo Real de Asúa. Fullu nafni heitir vínhúsið Compañía Vinícola del Norte del España eða Norður-spænska vínfélagið, skammstafað CVNE. Strax á fyrsta árganginum sem vínhúsið sendi frá sér var stafsetningarvilla á flöskumiðanum þar sem stóð CUNE í stað CVNE. Þar sem vínið fékk mjög góðar viðtökur ákváðu bræðurnir að halda þessari skammstöfun óbreyttri og þess vegna stendur enn CUNE á flöskumiðanum í dag. Vefsíðan þeirra er hins vegar á www.cvne.es og þar er farið ítarlegar yfir sögu vínhússins.

Vínin hafa átt miklum vinsældum að fagna og Imperial-vínin þótt skara fram úr meðal spænskra vína. Þannig var Imperial Gran Reserva 2004 valið vín ársins hjá Wine Spectator árið 2013. Þótt ótrúlegt megi virðast (miðað við ást mína á Rioja-vínum) þá hef ég aldrei skrifað um Imperial Reserva og það er því löngu orðið tímabært.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr þrúgunum Tempranillo (85%), Graciano (10%) og Mazuelo (5%). Að lokinni gerjun fékk vínið að liggja í 18 mánuði á 225 lítra tunnum úr franskri og amerískri eik. Eftir átöppun á flöskur fékk vínið svo að hvíla í 18 mánuði áður en það var sett á markað, líkt og lög gera ráð fyrir um Reserva-vín í Rioja.

CVNE Rioja Imperial Reserva 2016 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, plómur, leður, tóbak, súkkulaði, vanillu og anís. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Nýtt leður, vanilla, kirsuber, súkkulaði og tóbak í þéttu og góðu eftirbragðinu. 93 stig – mjög góð kaup (4.499 kr). Steinliggur með íslenska lambinu, einkum ef það hefur lent á grillinu, en nýtur sín líka vel með spænskum pylsum, tapas og góðum ostum.

Wine Spectator gefur þessu víni reyndar ekki nema 88 stig en Robert Parker gefur því 93 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4.2 stjörnur (1899 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri í Víngarðinum gefur því 4,5 stjörnur.

CVNE Rioja Imperial Reserva 2016
Mjög góð kaup
CVNE Rioja Imperial Reserva 2016 steinliggur með íslenska lambinu, einkum ef það hefur lent á grillinu, en nýtur sín líka vel með spænskum pylsum, tapas og góðum ostum.
4.5
93 stig

Vinir á Facebook