Í gær sagði ég ykkur frá þeim gleðitíðindum að vínin frá Markus Molitor væru loks fáanleg á Íslandi, þó reyndar verði bið á að þau komi í vínbúðirnar. Markus Molitor gerir á hverju ári um 100 mismunandi vín, langflest eru hvítvín úr Riesling – allt frá þurrum Kabinett-vínum yfir í sæt trockenbeerenauslese. Þessi vín hafa verið að fá gríðarlega góða dóma og á hverju ári fá yfirleitt nokkur þeirra 100 stig hjá Robert Parker. Á vef Robert Parker er að finna umsagnir um 98 vín úr 2018-árgangnum, og um helmingur þeirra fær 95 stig eða hærri einkunn. Markus Molitor fékk viðurnefnið „Herr 300 punkte“ árið 2015 þegar 3 vín úr 2013-árgangnum fengu 100 punkta hjá Robert Parker.
Markus Molitor skiptir hvítvínum sínum upp í þrjá flokka, og flokkunina má sjá á lit málmþynnunnar yfir tappanum, sem getur verið hvít, græn eða gyllt. Gylltu vínin eru öll sæt og sum þeirra einnig með eðalmyglu. Grænu vínin eru flest hálfþurr eða hálfsæt en þau hvítu eru flest þurr. Þá er Auslese sætvínunum skipt í þrjá flokka sem eru stjörnumerktir – * (góð), ** (betri) og *** (best).
Vín dagsins
Vín dagsins er það sem kalla má grunnvínið þegar hvítvín Molitors eru annars vegar. Molitor gerir auðvitað 3 mismunandi Haus Klosterberg Riesling – eitt í hverjum lit.
Markus Molitor Riesling Haus Klosterberg 2018 er strágult á lit, ungt og fínlegt að sjá. Í nefinu finnur maður steinefni, greipaldin og nýslegið gras. Í munni er fínleg sýra og frísklegur ávöxtur. Greipaldin, mandarínur og steinefni í góðu eftirbragðinu. Fer vel með fiskréttum, salati og ljósu fuglakjöti eða bara eitt og sér.. 89 stig. Mjög góð kaup (2.890 kr).
Robert Parker gefur þessu víni 88 stig. Notendur Vivino gefa víninu 4,1 stjörnur (1010 umsagnir þegar þetta er skrifað).