Vínhús Antinori er líklega eitt þekktasta vínhús Ítalíu. Saga Antinori nær yfir a.m.k. 6 aldir, en fyrirtækið var stofnað árið 1385 og það er 10. elsta fjölskyldufyrirtæki í heiminum. Saga Pèppoli er sennilega lengri en saga Antinori, en elstu heimildir um þessa vínekru eru frá árinu 1379. Pèppoli komst í eigu Antinori fjölskyldunnar á 600 ára afmæli vínhúss Antinori árið 1985. Vínekrurnar ná yfir um 50 hektara, en landareignin eru alls um 100 hektarar (þar eru auðvitað líka ræktaðar ólífur).
Antinori hafa lengi verið frumkvöðlar í víngerð á Ítalíu. Niccolò Antinori olli miklu hneyksli árið 1924 þegar hann bjó til Chianti-vín úr Bordeaux-þrúgum. Niccolò hélt áfram með ýmsar tilraunir í víngerðinni, s.s. með nýjum blöndum, breytingum á gerjunarhitastigi og mismunandi tunnum sem vínin voru þroskuð í. Þegar hann lét af störfum árið 1966 tók sonur hans Piero við og hélt tilraunastarfseminni áfram. Þekktasta afurð Piero Antinori er án efa Tignanello, sem í fyrstu var gert úr Cabernet Sauvignon og Cabernet Franc. Tignanello kom fram á sjónarsviðið árið 1974 og olli straumhvörfum í víngerð í Toscana. Á endanum var reglum Chianti Classico DOCG breytt til að lyfta vínum á borð við Tignanello upp á hærri stall.
Vín dagsins
Vín dagsins er að mestu búið til úr Sangiovese (90%) en inniheldur líka örlítið af Syrah (5%) og Merlot (5%). Að lokinni gerjun var vínið látið liggja í 9 mánuði í stórum tunnum úr Slavónskri eik, en örlítill hluti þess var látin liggja í stáltönkum.
Antinori Pèppoli Chianti Classico 2018 er rúbínrautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, hindber, plómur og pipar. Í munni eru góð tannín, fín sýra og góður ávöxtur. Kirsuber, hindber, vanilla, steinefni og pipar í góðu eftirbragðinu. Vín sem fer vel með léttari kjötréttum, pasta og ostum. 88 stig. Ágæt kaup (3.299 kr).
James Suckling gefur þessu víni 91 stig og tímaritið Wine Enthusiast gefur því 90 stig. Robert Parker gefur því 89 stig og notendur Vivino gefa því að meðaltali 3,8 stjörnur (4.204 umsagnir þegar þetta er skrifað.