Það er fátt sem jafnast á við góð árgangspúrtvín. Góð árgangspúrtvín geta geymst í áratugi – jafnvel 70-100 ár þegar best lætur. Þannig fékk 1896-árgangurinn af Dow’s 98 stig hjá Wine Spectator í árslok 1999 en 1854-árgangurinn fékk reyndar ekki nema 88 stig við sama tilfelli! Svipaðar sögur er hægt að segja af bestu púrtvínunum – þau eru oft í frábærtu ástandi þó þau séu orðin meira en 100 ára gömul.
Árgangspúrtvín eru aðeins búin til þegar árgangurinn er nógu góður. Þannig gerði Dow’s ekki púrtvín árin 2008-2010 og heldur ekki 2012-2015, en sum þessara ára voru samt búin til s.k. einnar-vínekru árgangspúrtvín. Árin 2016 og 2017 voru mjög góð, og í fyrsta sinn í meira en 130 ára sögu Symington-fjölskyldunnar, sem á m.a. Dow’s, voru gerð árgangspúrtvín 2 ár í röð!
Fyrir rúmum áratug komst ég yfir 3 flöskur af 2007-árgangnum af Dow’s. Þessi árgangur hafði þá fengið hæstu einkunn – 100 stig – hjá Wine Spectator og var sagt besta púrtvín sem Dow’s hefði nokkurn tíma gert. Vínið lenti reyndar aðeins í 14. sæti á topp 100-lista Wine Spectator árið 2010, en 2011-árgangurinn var svo valið vín ársins árið 2014. Ég náði líka að komast yfir 2 flöskur af þessu púrtvíni en skipti svo annarri þeirra fyrir Chateau d’Yquem 1994…
Þessar þrjár flöskur af Dow’s 2007 ákvað ég að opna þegar börnin mín myndu taka stúdentspróf (eða mótsvarandi). Um helgina var svo komið að því – frumburðurinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund. Það var því mikil eftirvænting hjá mér að geta að lokinni góðri veislu opnað fyrstu flöskuna.
Vín Dagsins
Þrúgurnar í þessu árgangspúrtvíni eru Touriga Franca (40%), Touriga Nacional (36%), Sousao (10%) og 14% koma af gömlum vínvið á bestu vínekrum Dow’s. Sumar af elstu plöntunum gefa ekki nema rúmlega 1 kíló af þrúgum en gæðin í þessum þrúgum eru hins vegar stórkostleg. Alls voru rúmlega 37.000 flöskur framleiddar af þessum víni.
Dow’s Vintage Port 2007 er djúprautt og dökkt á lit, unglegt með fallega tauma. Í nefinu finnur maður bláber, svartan pipar, súkkulaði, döðlur, plómur, fíkjur og krydd. Í munni er vínið í senn silkimjúkt og um leið gríðarlega kröftugt með mikla fyllingu. Kirsuber, bláber, plómur og fíkjur í krydduðu eftirbragðinu sem er nánast endalaust. Fer eflaust vel með góðum ostum en svona vil ég helst drekka eitt og sér. Þetta er tvímælalaust besta púrtvín sem ég hef nokkurn tíma smakkað og það var þess virði að geyma þessa flösku í 11 ár. Ég er þegar farinn að hlakka til að opna næstu flösku eftir (vonandi) 4 ár! 100 stig!
Wine Spectator gefur þessu víni 100 stig – „The greatest Dow ever made!“. Robert Parker gefur þessu víni ekki nema 94 stig, en notendur Vivino gefa því 4,7 stjörnur (252 umsagnir þegar þetta er skrifað).