Toro er vínræktarhérað á norðvestur Spáni og tilheyrir Castilla y Leon. Toro er nefnt eftir samnefndu þorpi sem liggur við ána Douro. Vínrækt á sér langa sögu í Toro sem hefst fyrir upphaf Rómaveldis. Vínin voru í miklum metum hjá spænsku hirðinni öldum saman. Árið 1933 var Toro skilgreint sem DO-svæði (Denominación de Origen), um svipað leyti og Rioja varð sérstakt DO-svæði. Toro fór hins vegar illa út úr spænska borgarastríðinu 1936-1939 og DO-skilgreiningin féll niður. Árið 1987 hlaut svæðið svo nýja DO-skilgreiningu.
Tinta de Toro (afbrigði af Tempranillo) er langmest ræktaða þrúgan í Toro, eða rúmlega 98% af allri vínrækt. Örlítið er ræktað af Garnacha, sem mest er notað í rósaín. Einnig er örlítið ræktað af Malvasia Blanca og Verdejo, sem eru notaðar í hvítvín, en hvítvínsframleiðslan í Toro er mjög lítil.
Aðstæður í Toro (heitir sumardagar, lítil úrkoma og mikið sólskin) valda því að þrúgurnar verða kröftugar og vínin gætu því náð allt að 16% áfengisinnihaldi. DO-reglurnar í Toro leyfa hins vegar ekki að áfengisinnihaldið fari yfir 15%. Flestir víngerðarmenn reyna hins vegar að halda áfengisinnihaldinu undir 13,5% svo að vínin verði aðgengilegri í neyslu.
Víðast hvar í Toro er gamall vínviður og um fjórðungur alls vínviðar í Toro er meira en 50 ára. Þá er einnig algengt að vínviður sé látinn vaxa sem runni í Toro.
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá Bodega Carodorum í Toro. Hér er á ferðinni 100% Tinta de Toro sem kemur af 80-100 ára gömlum vínið. Að lokinni gerjun hefur vínið fengið að liggja í 25 mánuði á frönskum eikartunnum.
Carodorum Seleccion Especial Toro 2015 er dökk-kirsuberjarautt á lit, unglegt með góða dýpt og fallega tauma. Í nefinu finnur maður kirsuber og sólberjasult, vanillu, svartan pipar, bláber og smá súkkulaði. Í munni eru kröftug tannin, góð sýra og þéttur ávöxtur. Kirsuber, súkkulaði, vanilla, tóbak og eik í þéttu og góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel. 95 stig. Þetta er alvörubolti sem er svolítið ungur ennþá og á eflaust eftir að mýkjast á næstu 2-3 árum. Steinliggur með nautasteikinni en fer líka eflaust vel með villibráð og jafnvel lambi. Frábær kaup (5.091 kr). Æðislegt vín!
Decanter gefur þessu víni 96 stig og notendur Vivino gefa því 4,3 stjörnur (78 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson gefur því 5 stjörnur.